Segir Jóhanni illa sinnt í íslenskum leikhúsum

Mynd: RÚV / RÚV

Segir Jóhanni illa sinnt í íslenskum leikhúsum

16.10.2019 - 14:12

Höfundar

Sveinn Einarsson leikstjóri segir að verk Jóhanns Sigurjónssonar, eins helsta leikskálds Íslands, liggi óbætt hjá garði í íslenskum leikhúsum. „Það er skylda okkar að rækta það sem við eigum best og gera það almennilega,“ segir Sveinn, „og ef að leikhúsið gerir það ekki, hafi það skömm fyrir.“

Í haust eru hundrað ár frá andláti Jóhanns Sigurjónssonar skálds. Jóhann var fyrsta mikilsmetna leikskáld landsins og hlaut alþjóðlega frægð fyrir verk sín. Hann samdi sex um ævina, þar af eru Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur þekktust, tvö af stærstu verkum íslenskra leikbókmennta.

Í stórleikhúsum landsins, Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu, var Jóhanns minnst fyrir skemmstu og fjallað um framlag hans til íslenskrar leikritunar. Í Borgarleikhúsinu var haldið málþing 11. október um hann þar sem lesin var sviðsgerð Páls Baldvins Baldvinssonar á Galdra-Lofti sem frumsýnd var í leikhúsinu 1994. Í Þjóðleikhúsinu var mánudaginn 14. október hátíðarkvöld til heiðurs honum undir heitinu Reikult er rótlaust þangið. Þar voru einnig leiklesin atriði úr verkum Jóhanns.

Sveinn Einarsson leikstjóri kom fram á báðum viðburðum og kynnti þar nýja bók sína um skáldið, sem nefnist Úti regnið grætur. En það er ekki á Sveini að heyra að Jóhanni Sigurjónssyni sé vel sinnt í íslensku leikhúsi.

Sveinn segir í viðtali í Víðsjá á Rás 1 að Jóhann lifi í dag góðu lífi sem ljóðskáld – en sem leikskáld eigi hann undir högg að sækja. „Það þykir mér miður af því að við eigum ekki marga betri.“ Leikverk Jóhanns eiga sannarlega erindi í dag að mati Sveins. „Jóhann á eins og öll stórskáld erindi. Ef hann fær ekki að flytja sitt erindi þá er það okkur að kenna.“ Hann nefnir leikritið Rung lækni sem dæmi. „Það fjallar um ábyrgð manna gagnvart vísindum og vísindanna gagnvart manninum. Þetta á eins mikið erindi og þegar það kom fram, ef ekki meira. Í því er komið inn á umhverfis- og loftslagspurningar og allt mögulegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: cc
Jóhann Sigurjónsson skáld fæddist 1880 og lést 1919.

Af öllum hans verkum þykir Sveini leikrit hans um Mörð Valgarðsson helst hafa legið óbætt hjá garði. „Mér finnst skömm að því að við skulum ekki hafa leikið oftar Mörð,“ segir hann. Verkið skrifaði Jóhann á dönsku árið 1917, það hefur tvívegis verið flutt í útvarpi og einu sinni á leiksviði. „Það sem hann geldur er það sem að flestir hafa lent í og það er það að það verður oft gjá milli nútímalegs tungutaks og þess stíls sem situr fastur úr Íslendingasögunum. Auðvitað á að leika þetta verk, þýða það upp á nýtt og sýna því þá virðingu sem það á skilið.“

Sveinn segir að það sé einfalt mál að halda lífi í þessum verkum Jóhanns. „Með því að sinna þeim. Með því að prófa þau á margan máta.“ Enn megi til að mynda koma auga á nýjar hliðar og möguleika í Fjalla-Eyvindi, verki sem kom út árið 1911. „Það er skylda okkar að rækta það sem við eigum best og gera það almennilega. Og ef að leikhúsið gerir það ekki, hafi það skömm fyrir.“

Tengdar fréttir

Leiklist

Hundrað ára ártíð Jóhanns Sigurjónssonar