Í haust eru hundrað ár frá andláti Jóhanns Sigurjónssonar skálds. Jóhann var fyrsta mikilsmetna leikskáld landsins og hlaut alþjóðlega frægð fyrir verk sín. Hann samdi sex um ævina, þar af eru Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur þekktust, tvö af stærstu verkum íslenskra leikbókmennta.
Í stórleikhúsum landsins, Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu, var Jóhanns minnst fyrir skemmstu og fjallað um framlag hans til íslenskrar leikritunar. Í Borgarleikhúsinu var haldið málþing 11. október um hann þar sem lesin var sviðsgerð Páls Baldvins Baldvinssonar á Galdra-Lofti sem frumsýnd var í leikhúsinu 1994. Í Þjóðleikhúsinu var mánudaginn 14. október hátíðarkvöld til heiðurs honum undir heitinu Reikult er rótlaust þangið. Þar voru einnig leiklesin atriði úr verkum Jóhanns.
Sveinn Einarsson leikstjóri kom fram á báðum viðburðum og kynnti þar nýja bók sína um skáldið, sem nefnist Úti regnið grætur. En það er ekki á Sveini að heyra að Jóhanni Sigurjónssyni sé vel sinnt í íslensku leikhúsi.
Sveinn segir í viðtali í Víðsjá á Rás 1 að Jóhann lifi í dag góðu lífi sem ljóðskáld – en sem leikskáld eigi hann undir högg að sækja. „Það þykir mér miður af því að við eigum ekki marga betri.“ Leikverk Jóhanns eiga sannarlega erindi í dag að mati Sveins. „Jóhann á eins og öll stórskáld erindi. Ef hann fær ekki að flytja sitt erindi þá er það okkur að kenna.“ Hann nefnir leikritið Rung lækni sem dæmi. „Það fjallar um ábyrgð manna gagnvart vísindum og vísindanna gagnvart manninum. Þetta á eins mikið erindi og þegar það kom fram, ef ekki meira. Í því er komið inn á umhverfis- og loftslagspurningar og allt mögulegt.“