Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir galið að taka seðla úr umferð

22.06.2017 - 14:23
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi 8. desember 2016.
 Mynd: RÚV
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir galið að banna fólki að stunda viðskipti sín á milli með peningaseðlum. Besta ráðið við skattsvikum sé að hafa skatta lága og skattkerfið gegnsætt og skilvirkt.

Meðal tillagna í skýrslu um skattaundanskot, sem kynnt var í morgun, er að draga verulega úr notkun peningaseðla. Leggur starfshópurinn til að taka tíu þúsund króna seðla úr umferð sem fyrst, og fimm þúsund króna seðla í framhaldinu. Jafnframt leggur hópurinn til að hámarksfjárhæð verði sett vegna greiðslu fyrir vörur og þjónustu með reiðufé.

Teitur Björn Einarsson er ekki hrifinn af tillögunum, ef marka má færslu á Facebook-síðu hans. Þar segir hann að hugmyndin um að banna fólki að stunda viðskipti sín á milli með lögeyri útgefnum af ríkinu sjálfu sé kolröng nálgun og hreinlega galin hugmynd.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði í hádegisfréttum RÚV að mikilvægt væri að tillögunum yrði ekki stungið ofan í skúffu, heldur yrði strax hafist handa við að koma þeim í framkvæmd. „Með því að minnka seðlanna sem eru í umferð þá verður óþægilegra að nota þá,“ sagði Benedikt.  

Teitur Björn er þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðvesturkjördæmi og hefur setið á þingi frá síðasta hausti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur einungis eins manns meirihluta og því þurfa allir þingmenn að styðja breytingar til að tryggja að þær farið í gegnum þingið. Ef marka má ummæli Teits, þá bendir til þess að ekki sé meirihluti fyrir því að takmarka notkun peningaseðla.