Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir gagnrýni á Tetra-kerfið ósanngjarna

Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg / Slysavarnafélagið Landsbjörg
Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir að gera þurfi stórátak í að koma upp varaaflstöðvum til að koma í veg fyrir viðlíka truflun á fjarskiptasambandi og varð í óveðrinu í síðustu viku. Hann segir gagnrýni á tetra-kerfi almannavarna ósanngjarna.

Fordæmalaus truflun varð á fjarskiptasambandi í óveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku. Farsíma- og netsamband lá víða niðri og truflanir urðu á sjónvarps- og útvarpsútsendingum. Þá birtust fréttir af truflunum á tetra-kerfi almannavarna í Skagafirði og var haft eftir yfirlögregluþjóni á Norðurlandi að kerfið hafi legið niðri í sólarhring.

Tæpir þrír tímar, ekki sólarhringur

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir hins vegar að truflunin hafi einungis varað í tæpa þrjá tíma. Var hún til komin vegna þess að örbylgjusamband milli sendis á Einhyrningi og stöðvar á Sauðárkróki rofnaði. Venjulega séu tvær örbylgjusendingar þar á milli en þegar óveðrið skall á hafi einungis ein verið í gangi. „Það er eitthvað sem við gátum alls ekki gert neitt við. Við réðum ekkert við það, þetta er ekki okkar kerfi sem við erum að reka. Aftur á mót var nægilegt rafmagn þarna. Við fórum með varaaflsstöð og settum í gang og hélt stöðinni gangandi allan tímann. Auðvitað var þetta mjög bagalegt þarna og okkur þykir það leiðinlegt að þetta skyldi hafa verið úti í tvo tíma og fjörtíu og átta mínútur og er ekkert afsakanlegt.“

Bætir Þórhallur við að Neyðarlínan hafi í fimm ár freistað þess að koma á ljósleiðara milli Einhyrnings og Sauðárkróks en það hafi ekki tekist vegna afstöðu landeiganda.

Þórhallur segir mikilvægt að fólk fari varlega í yfirlýsingar þegar aðstæður eru sem þessar. „En bara til þess að segja það að það er nauðsynlegt að láta rykið sjatna og spyrja spurninga og ræða málin áður en einhverjar stórar yfirlýsingar um heilu kerfin séu settar fram.“

Kallar eftir átaki í uppsetningu varaaflsstöðva

Þórhallur kallar eftir því að hið opinbera taki höndum saman við Neyðarlínuna og önnur fjarskiptafyrirtæki í að byggja upp varaaflstöðvar víðs vegar um landið.  „Það er vont ef fólk er sólarhringum saman án símasambands og geti ekki hringt á neyðarlínuna eftir aðstoð ef eitthvað ber út af. Það er mjög alvarlegt mál. Það er lang ódýrasta aðferðin til að tryggja öryggi. Og þá ég ekki bara við símafélögin og Tetra heldur líka RÚV og þeirra þjónustu.“

Áætlar Þórhallur að kostnaður við slíkt verkefni nemi um 250 milljónum króna. Póst- og fjarskiptastofnun fundar á morgun með fjarskiptafyrirtækjum og fleiri þar sem farið verður yfir þá stöðu sem kom upp í óveðrinu og mögulegar leiðir til úrbóta.