Segir FME hljóta að rannsaka GAMMA Novus

03.10.2019 - 19:22
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sérfræðingur í fjármálamörkuðum segir að Fjármálaeftirlitið hljóti að taka málefni fjárfestingasjóðsins Gamma Novus til skoðunar, ef það er ekki þegar byrjað á því. Forsvarsmenn Gamma vinna að áætlun sem ætlað er að hámarka endurheimtur úr sjóðnum.

Vandræði Gamma Novus má rekja til erfiðrar stöðu Upphafs fasteignafélags. Nýráðinn forstjóri Gamma sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að milljarð vantaði til að fjármagna allar framkvæmdir félagsins til verkloka. 

Kvika banki tók yfir Gamma í vor. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það þegar nýir eigendur fóru yfir grunngögnin að baki Gamma Novus sem í ljós kom að staða sjóðsins var mun verri en talið hafði verið. Það sama kom í ljós við endurmat á Gamma Anglia en eigið fé þess sjóðs rýrnaði um 50 prósent. Vinna við að endurmeta aðra sjóði Gamma er langt komin en samkvæmt sömu heimildum má ekki búast við sambærilegum breytingum þar.

Planið kynnt á þriðjudag

Staðan skýrist á þriðjudaginn þegar fundur með skuldabréfaeigendum verður haldinn, þar sem kynnt verður áætlun til að hámarka eignir Upphafs. Það felst í því að skuldabréfaeigendur leggi félaginu til umræddan milljarð til að klára útistandandi verkefni sem flest eru vel á veg komin og setja í sölu. Þróunareignir verði aftur á móti seldar. Með þessu móti verði hægt að tryggja sem mestar endurheimtur. Gangi skuldabréfaeigendur ekki að þessum skilmálum þarf Gamma að finna aðrar leiðir til að fjármagna félagið.

Vilja trúverðug svör

Fjárfestar í sjóðnum eru afar óánægðir með stöðu mála og kalla eftir skýringum. Þeirra á meðal eru forráðamenn lífeyrissjóða. „Við gerum fastlega ráð fyrir því að þeir sem reka sjóðinn í dag muni fara yfir rekstrarsögu þessa sjóðs. Það er varðveisluskylda á bókhaldsgögnum í sjö ár og við ætlumst til þess að okkur verði svarað á trúverðugan hátt,  að það hafi engin spilling verið þarna. Við höfum enga ástæðu til að ætla að það hafi verið þannig en að því verði svarað fyrst af öllu,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.

Þarf að rannsaka vel

Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálamörkuðum, tekur undir að þetta mikla hrun á eigin fé sjóðsins kalli á einhvers konar rannsókn. „Það er svo mikil breyting á svo stuttum tíma að það hlýtur að þurfa að rannsaka það vel.“

Annaðhvort geti fyrirtækið sjálft efnt til rannsóknar eða fengið utanaðkomandi aðila til þess. Þá hafi Fjármálaeftirlitið hlutverki að gegna. „Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með lífeyrissjóðunum og ef lífeyrissjóðirnir voru stórir þarna inni þá spyr maður sig hvort það hafi átt að vera harðara eftirlit þaðan frá séð. Þannig að Fjármálaeftirlitið hefði átt að stíga fyrr inn í? Já eða þurfi að kíkja á þetta mál núna. Þetta eru náttúrlega eftirlitsskyldir aðilar líka, Kvika og Gamma, þannig að það hlýtur nú að vera byrjuð könnun á því hvort að þarna sé eitthvað tilefni til að rannsaka málin frekar.“

Fjármálaeftirlitið segist ekki geta gefið upplýsingar um einstök mál.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi