Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir flugfélagið brjóta Evrópureglugerð

21.10.2019 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Air Iceland Connect hefur innleitt fráleita skilmála sem takmarka möguleika farþega á að krefjast bóta vegna seinkana og aflýsinga,“ segir Ómar R. Valdimarsson, lögmaður Flugbóta.is sem hafa stefnt flugfélaginu fyrir hönd farþega. Framkvæmdastjóri flugfélagsins segir uppfærða skilmála tryggja að farþegar fái greiddar fullar bætur.

Í skilmálunum er þá tekið fram að fyrirtækið vinni ekki úr kröfum sem berast frá þriðja aðila fyrir hönd farþega og að þær verði einungis greiddar beint til farþega án milliliða. Jafnframt gefur Air Iceland Connect sér 30 daga til að svara kröfum áður en þriðji aðili kemur að máli. Ómar segir að með þessum breytingum brjóti flugfélagið í bága við Evrópureglugerð um bótakröfur.

Bótakröfu neitað nema að skilmálar séu uppfylltir

Ómar rekur mál Flugbóta.is fyrir hönd farþega sem átti flug frá Egilsstöðum til Reykjavíkur sem var fellt niður í byrjun september. Þegar Flugbætur sendu kröfu til flugfélagsins fyrir hönd farþegans var kröfunni neitað og bent á uppfærða skilmála.

 „Það skýtur skökku við að félagið geti einhliða áskilið sér þann rétt að kröfur komi bara frá viðkomandi farþega en ekki þriðja aðila. Þeir vilja þar með skera í burt þá aðila sem hafa haldið þessum kröfum á lofti fyrir farþeganna hönd,“ segir Ómar. Hann segir jafnframt gefa auga leið að kröfum farþega á hendur flugfélaginu muni fækka með breyttum skilmálum.

Flugbætur.is er í eigu ESJA Legal ehf. Á síðu fyrirtækisins er farþegum boðið upp á aðstoð við að sækja rétt sinn og fá bætur greiddar þegar flugi er seinkað eða aflýst. Þá taka Flugbætur 25 prósent af greiddum bótum í þóknun auk virðisaukaskatts.

Eru að tryggja að reglugerðin virki að fullu

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir mat Ómars um að flugfélagið brjóti á Evrópureglugerð fjarstæðukennt. Í reglugerðinni sé einmitt verið að gera ráð fyrir því að farþegar geti fengið bætur upp á tilgreindar upphæðir.

„Við viljum einfaldlega tryggja að þessi reglugerð virki að fullu. Það er alls ekki verið að takmarka rétt farþega,“ segir Árni.

Þá segir hann að með skilmálabreytingunum sé verið að tryggja að bætur sem farþegi á sannarlega rétt á séu greiddar til farþega milliliðalaust.

„Við höfum séð að farþegar eru mögulega að fara í gegnum svona fyrirtæki, sem eru þá að taka hluta af þeim bótum sem farþegi á rétt á. Þá höfum við í einhverjum tilvikum fengið fyrirspurnir frá farþegum um hvar restin af bótunum er. Við höfum sett upp einfalt form á vefinn þar sem farþegar geta sótt um bætur milliliðalaust. Það er yfirleitt afgreitt á mjög skömmum tíma, innan örfárra daga,“ segir Árni.

Getur alltaf leitað til lögfræðings

Árni áréttar þá að farþegi geti ávallt leitað sér lögfræðiaðstoðar.

„Hann getur alltaf leitað til lögfræðings, en við viljum þá að það sé engu að síður greitt beint til farþega. Það hafa verið dómar erlendis þar sem svona skilmálar hafa verið settir inn og svona fyrirtæki eins og hér um ræðir farið með það fyrir dómstóla og tapað slíku máli. Réttur neytenda á að fá óskertar bætur er ofar því að þriðji aðili geti komist inn og fengið hlut af þessu,“ segir Árni.