Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir fjárveitingar hlægilegar

22.03.2015 - 22:24
People march with a rainbow-colored flag during a gay pride parade in Miami Beach, Fla. Saturday, April  18, 2009. (AP Photo/Lynne Sladky)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP Photo/Lynne Sladky
Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna 78, félags hinsegin fólks, segir að félagið geti ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem lögð sé á herðar þess án aukins fjármagns frá ríki og sveitarfélögum. Aðalfundur samtakanna fór fram í dag og var Hilmar endurkjörinn formaður.

Miklar kröfur gerðar

Hann segir að stjórnvöld og almenningur geri miklar kröfur til samtakanna sem haldi meðal annars úti sálfræðiþjónustu, ráðgjöf og fræðslustarfi. Það sé því bæði óraunhæft og ósanngjarnt að ætlast til þess að það starf sé nær eingöngu unnið af sjálfboðaliðum. Í fyrra fengu samtökin sex milljóna styrk frá ríkinu og 2,5 milljónir vegna þjónustusamnings þess við Reykjavíkurborg. Sá samningur rann út á síðasta ári og á félagið nú í viðræðum við borgina um endurnýjun hans. Þá skiluðu félagsgjöld samtökunum tveimur milljónum. Félagar í samtökunum eru rúmlega þúsund og þar af greiða 455 félagsgjöld. 

Tveir starfsmenn á launum

Hilmar segir framlögin duga skammt og vera hlægileg í samanburði við framlög ríkis og sveitarfélaga til annarra hópa. Stefna sé einskis virði án fjármagns til framkvæmda. Þá segir hann að samtökin ráði einungis við að borga tveimur starfsmönnum í hálfu starfi laun og sjálfboðaliðar fái þóknun. Hann segir reksturinn ekki sjálfbæran og óttast að sjálfboðaliðarnir leggi of hart að sér og brenni út í starfi. Þeir geri þetta meðfram annarri vinnu.

Fjárstyrkir ekki í samræmi við áherslu á málaflokkinn

„Kjarninn í þessu er að þunginn leggst allur á sjálfboðaliða. miðað við hversu mikla áherslu stjórnvöld hafa lagt á málaflokkinn þá hafa peningarnir ekki fylgt með, þetta hefur verið meira í orði en á borði," segir hann. Samtökin gegna engum lögbundnum skyldum en Hilmar segist finna það í samtali við ríki og sveitarfélög að mikil krafa sé uppi um að þau veiti þjónustu þar sem þau séu eina stofnunin sem búi yfir sérfræðiþekkingu á málefnum hinsegin fólks.

Félagið sinnir fleiri hópum

Á aðalfundinum í dag var samþykkt að viðurkenna intersex-fólk, ókynhneigða, þá sem ekki laðast að fólki kynferðislega, og þá sem laðast að einstaklingum óháð kyni, sem formlegan hluta félagsins.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV