Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir engar skýringar að finna á verðmun

29.08.2019 - 21:15
Mynd: Skjáskot / RÚV
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að jafnvel þótt svo reynt sé að finna skýringar á mun hærra hráefnisverði fyrir makríl í Noregi en á Íslandi sé þær skýringar ekki að finna. Hann segir að útgerðarmenn stilli verðið af gagnvart vinnslum með þeim hætti að sjómenn fái minna í sinn hlut en þeir ættu að fá.

Vilhjálmur og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, ræddu nýja skýrslu Verðslagsstofu skiptaverðs í Kastljósi í kvöld. Skýrslan leiðir í ljós að norskar útgerðir fá margfalt hærra hráefnisverð fyrir makríl en íslenskar. Skiptaverðið ræður því hversu há laun sjómanna verða. Vilhjálmur segir muninn milli landanna vera gríðarlegan og skýrast af því að veiðar og vinnsla séu á sömu hendi.

Heiðrún Lind gagnrýnir skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs. Henni sé ætlað að draga úr tortryggni og varpa ljósi á verðmyndunarmál en það geri hún ekki í þessu tilfelli. Þess í stað hafi hún birt tölur án nokkurra forsenda eða skýringa. „Það villir auðvitað sýn. Skýringin er sú að það er verið að bera saman epli og appelsínur.“

Heiðrún sagðist ekki hafa fulla yfirsýn yfir forsendurnar að baki verðmyndun makríls í Noregi. „Hins vegar liggur það alveg í augum uppi að það er munur á gæðum makrílsins milli Íslands og Noregs. Norðmenn ná að veiða þetta tiltölulega nálægt landi, því sem næst í túnfætinum hjá sér. Þetta er feitur fiskur, betri afurð. Þeir geta jafnvel heilfryst hann, selt hann þannig og fengið betra verð.“

Vilhjálmur gaf lítið fyrir skýringar Heiðrúnar. „Það er alveg sama hvernig menn reyna að leita einhverra skýringa, hvort að gæðin séu betri hjá Norðmönnum heldur en okkur, þennan mun er ekki hægt að finna. Þetta á ekki bara við um makrílinn. Þetta á líka við um loðnuna.“ Hann sagði að árið 2017 hefðu Norðmenn veitt hér við land, sama stofn af loðnu og Íslendingar, og fengið 80 krónur fyrir hvert kíló af loðnu en Íslendingar 35 krónur.  

Mynd: Skjáskot / RÚV