Segir enga ástæðu til að rannsaka Biden feðga

29.09.2019 - 23:55
epa07872755 (FILE) - Then US Vice President Joe Biden (L) and his son Hunter Biden attend a college basketball game, at the Verizon Center in Washington, DC, USA, 30 January 2010 (reissued 27 September 2019). An impeachment inquiry against US President Donald J. Trump has been initiated following a whistleblower complaint over his dealings with Ukraine. The whistleblower alleges that Trump had demanded Ukrainian investigations into US Presidential candidate Joe Biden and his son Hunter Biden's business involvement in Ukraine.  EPA-EFE/ALEXIS C. GLENN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Fyrrverandi ríkissaksóknari Úkraínu segir engin lög í heimalandinu styðja við rannsókn á þeim Joe og Hunter Biden. Í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, segir Júrí Lútsenkó að rannsókn á feðgunum yrði að hefjast í Bandaríkjunum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sótt hart að úkraínskum stjórnvöldum um að rannsaka mögulega spillingu Biden feðga í Úkraínu. Aðferðir hans hafa orðið til þess að Bandaríkjaþing hóf rannsókn á Trump vegna meintra brota í embætti. Miðað við atburðarásina lítur út fyrir að Trump hafi haldið aftur af fjárstyrk til varnarmála í Úkraínu þar til Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, samþykkti að gera Trump þann greiða að taka upp rannsókn á Hunter Biden, syni Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.

Biden er talinn einna líklegastur til að vinna forkjör Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Það þýðir að hann yrði keppinautur Trumps um forsetaembættið. Trump er því sakaður um að hafa sóst eftir aðstoð erlends ríkis í kosningabaráttu sinni.

Lutsenko tók við embætti ríkissaksóknara af Viktor Shokin. Sá var gagnrýndur víða á vesturlöndum fyrir linkind í garð auðjöfra í landinu, þegar hann átti að vera að rannsaka og uppræta spillingu. Lutsenko lét af embætti saksóknara í síðasta mánuði. Hann sagði engar áætlanir uppi um að rannsaka gasfyrirtækið Burisma aftur. Hunter Biden settist í stjórn fyrirtækisins árið 2014, en rannsóknin sem gerð var á fyrirtækinu er vegna áranna á undan, 2010 til 2013.

Lutsenko sagði BBC að hann hafi hitt Rudy Giuliani vegna málsins. Hann sagði Giuliani það sama og hann tjáði blaðamanni BBC, að ný rannsókn yrði að hefjast í Bandaríkjunum. Ef hann yrði beðinn um að senda gögn vegna málsins væri það alveg sjálfsagt, en málið tilheyrði ekki lögsögu Úkraínu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi