Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ekki það sama ganga yfir konur og karla

Mynd: EPA / EPA

Segir ekki það sama ganga yfir konur og karla

06.07.2019 - 09:00
Alex Morgan, framherji bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta, er ósátt við þá gagnrýni sem hún hefur hlotið fyrir fagn sitt gegn Englandi í undanúrslitum HM á dögunum. Hún segir ekki það sama ganga yfir konur og karla í þeim efnum, að tvöfalt siðgæði sé í fótboltaheiminum.

Talsvert hefur gustað um lið Bandaríkjanna á mótinu. Megan Rapinoe náði að ergja forseta Bandaríkjanna í vikunni og Alex Morgan var gagnrýnd víða á Englandi fyrir fagn sitt í undanúrslitaleiknum. Hún segir bandaríska liðið einblína á sigur í úrslitaleiknum á morgun en hafi ekkert ákveðið með heimsókn í Hvíta húsið.

Morgan fagnaði marki sínu gegn Englandi með því að sýnast fá sér tesopa, nokkuð sem einhverjir Englendingar tóku sem mógðun. Morgan bar af sér sakir í dag en skaut á tvöfalt siðgæði í fótboltaheiminum.

„Mér finnst ríkja einhvers konar tvöfalt siðgæði um konur í íþróttum; að ætlast sé til þess að við séum auðmjúkar þegar vel gengur og að við eigum ekki að fagna of ákaflega, og að við eigum að gera eitthvað en alltaf á takmarkaðan hátt. Við sjáum karla fagna mörkum á stórmótum um allan heim með því að grípa um punginn eða hvað sem það er. Þegar ég ber það saman við að þykjast drekka tesopa verð ég steinhissa, og ég get ekki annað en hlegið þegar ég sé alla gagnrýnina. Ég er dálítið vonsvikin með það.“

Aðspurð um heimsókn í Hvíta húsið er titillinn vinnst var Morgan loðnari í svörum.

„Ég held að við ákveðum það eftir leikslok á sunnudaginn. Mikið hefur verið um ótímabært tal um Hvíta húsið og Trump. En fyrst þurfum við að ljúka verkefninu. Ég held að þið vitið líka svarið við spurningunni.“

Ummæli Morgans má sjá í spilaranum að ofan.

Bandaríkin og Holland mætast í úrslitaleik HM á morgun klukkan 15:00. Í dag fer fram bronsleikur Englands og Svíþjóðar sem einnig er klukkan 15:00. Báðir leikir verða í beinni útsendingu á RÚV.