Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir ekki sömu óvissu og 2012

11.10.2015 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ekki ákveðið hvort hann gefur kost á sér að nýju í embætti forseta. Hann segir ekki sömu óvissu uppi nú og hafi verið þegar hann ákvað að gefa kost á sér aftur fyrir síðustu forsetakosningar.

Þrjú mál síðustu ríkisstjórnar hafi verið með þeim hætti að hann taldi sig þurfa að stíga fram; Evrópusambandsmálið, stjórnarskrármálið og Icesavemálið.

Þetta kom fram í viðtali Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Ólafur Ragnar segir óvissuna vegna Icesave-málsins vera frá, en það mál hafi verið í hámæli 2012. Þá segir hann efnahagslega óvissu ekki þá sömu og hafi verið 2012.

„Varðandi Evrópusambandið þá er alveg ljóst að Ísland er ekki lengur umsóknarland,“ segir Ólafur Ragnar. „Og allir flokkar segja að ef það á að hefja þá vegferð á nýjan leik, þá þurfi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort að það eigi að halda því áfram. Þannig að það er með engum hætti hægt að segja að það sé samskonar óvissa núna eins og var 2012.“

Aðspurður hvort óvissan hafi verið sköpuð af þáverandi ríkisstjórn, segir Ólafur Ragnar ljóst að ríkisstjórnin hafi verið hluti af því. „Til dæmis ákafi þáverandi forsætisráðherra í stjórnarskrármálinu, alveg óháð því hvað var skynsamlegt, m.a. hvernig því máli var ýtt úr vör, með alvarlegum mistökum að mínum dómi, sem gerði það að verkum að vegferðin gat nánast aldrei gengið upp,“ segir Ólafur Ragnar, og á þar við kosningar til stjórnlagaþings, sem dæmdar voru ólöglegar af Hæstarétti. Sama óvissa hafi verið í Evrópusambandsmálinu og í Icesavemálinu. „Í öllum þessum málum var auðvitað ríkisstjórnin drifkraftur,“ segir Ólafur Ragnar.

„Þó að forsetinn skipti sér almennt ekki af stjórnmálum í landinu, þá voru þrjú mál, sem ég taldi nauðsynlegt og væru þess eðlis að ég yrði að fara fram á völlinn. Eitt var Icesavemálið, annað var stjórnskipun lýðveldisins og það þriðja var sambúð okkar við Evrópu og hvort við afsöluðum okkur afgerandi fullveldi í hendur Evrópusambandsins,“ segir Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar hyggst tilkynna í nýársávarpi sínu hvort hann gefi kost á sér að nýju.