Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir ekkert að styrkjum til flokksins

10.03.2015 - 18:53
Kynning á niðurstöðum aðgerða ríkisstjórnar Íslands vegna leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og lækkunar höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir styrki til Sjálfstæðisflokksins eðlilega. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Það er ekkert að því að Sjálfstæðisflokkurinn fái styrki frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta segir formaður flokksins. 90% af öllum fjárstuðningi útgerðarfyrirtækjanna fyrir síðustu kosningar runnu til stjórnarflokkanna.

Fyrirtæki í sjávarútvegi styrktu stjórnmálaflokkana um 16 milljónir króna fyrir síðustu Alþingiskosningar. 90 prósent þess fjár fóru til Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þá styrktu sjávarútvegsfyrirtæki frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins um rúmlega 7 milljónir í prófkjörum fyrir síðustu Alþingiskosningar. Frambjóðendur annarra flokka fengu hins vegar engan stuðning frá fyrirtækjunum. Fréttastofa spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, hvort þetta væri eðlilegt fyrirkomulag.

„Það sem er eðlilegt er það að stjórnmálaflokkar geta tekið við framlögum frá atvinnulífinu upp að 400.000 krónum. Það hefur enginn stjórnmálaflokkur fengið meira en 400.000 krónur frá hverju og einu atvinnufyrirtæki í landinu. Þetta eru mjög strangar reglur, enda sést það ágætlega á fjármálum stjórnmálaflokkanna, að þeir eru ekkert alltof vel settir. Sjálfstæðisflokkurinn er með ágætis dreifingu í þeim stuðningi sem hann hefur fengið. Og ég sé ekkert að því að hann njóti stuðnings frá sjávarútvegsfyrirtækjum eins og öðrum,“ segir Bjarni.

En nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist fyrir bættum hag sjávarútvegsfyrirtækja, lækkað veiðigjald og auðlegðarskatt, er þetta ekki óheppilegt í því ljósi?

„Þetta er algjörlega alrangt sem þú ert að segja. Sjálfstæðisflokkurinn er að berjast fyrir bættum hag landsmanna. Til þess að landsmenn njóti góðs af nýtingu sjávarútvegsauðlindarinnar þurfum við að hafa hér skynsamlegt fiskveiðistjórnunarkerfi,“ segir Bjarni.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í morgun.