Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir einn flokk „halda lýðræðinu í uppnámi“

Mynd: RUV / RUV
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri Grænna, segir óásættanlegt að einn flokkur geti tekið sér stöðu og haldið löggjafanum og þar með lýðræðinu í uppnámi, og vísar þar til málþófs Miðflokksmanna í umræðum um þriðja orkupakkann. Hún segir að þingið hafi verið afkastamikið og mörg góð mál bíði.

„Það voru margir sem ráku upp stór augu þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð fyrir einu og hálfu ári síðan og hefur fólki verið tíðrætt um það síðan hvað samstarf þessara þriggja flokka er óvenjulegt. Það er hins vegar að koma betur og betur í ljós, einu og hálfu ári eftir að ríkisstjórnin tók til starfa, að breið samstaða skilar árangri.“ Bjarkey hóf ræðu sína á þessum orðum og sagði mikla samstöðu ríkja innan stjórnarinnar. Óvissuteikn hafi verið á lofti þegar stjórnartíð Vinstri Grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst, ferðaþjónustan stóð frammi fyrir samdrætti og óvissa á vinnumarkaði. Nú sé spáð samdrætti í hagkerfinu en það sé borð fyrir báru. „Því hljótum við að bregðast við en í tengslum við áætlanagerð ríkisins hef ég ávallt talað um að það þurfi að vera sveigjanleiki í áætlunum. Gangi þær spár ekki eftir sem áætlanirnar byggja á, þá aðlögum við áætlanirnar. Sem betur fer hefur þessi ríkisstjórn skilið eftir talsvert svigrúm í afkomu ríkissjóðs til þess að mæta slíkum áföllum. Ísland stendur vel og þarf enginn að óttast það að við ráðum ekki við skammtíma áfall á borð við gjaldþrot flugfélags og loðnubrest,“ sagði Bjarkey. 

„Nú er komið að því að uppskera“

Bjarkey nefndi fjölda þingmála sem bíði afgreiðslu, ný heilbrigðisstefna til 2030, áætlun gegn ofbeldi á afleiðingum þess og sérstaka uppbót vegna framfærslu og meðferð atvinnutekna - fyrsta skrefið í afnámi hinnar svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. En Bjarkey sagði í ræðu sinni alls óvíst að þessi mál verði afgreidd vegna þeirrar stöðu sem þingmenn standi frammi fyrir. „Vegna þess að einn þingflokkur hefur tekið það að sér að tala hér í tæpar tvær vikur, á milli þess sem hann sannfærir þing og þjóð um að þeir séu alls ekki að stunda málþóf. Á meðan bíðum við hin 54 sem eigum sæti hér á alþingi, eftir því að geta tekið þessi góðu og þörfu mál til umræðu og afgreiðslu. 149. þing hefur verið starfssamt og afkastamikið og nú er komið að því að uppskera. Þannig virkar Alþingi, þingið okkar í lýðræðissamfélagi. Það er óásættanlegt að einn þingflokkur taki sér þá stöðu að halda löggjafanum og þar með lýðræðinu í uppnámi, sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í ræðu sinni í kvöld. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV