Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir efnahagsástandið aldrei hafa verið betra

14.06.2017 - 19:52
Efnahagsástandið hefur aldrei verið betra, að mati seðlabankastjóra, í það minnsta ekki á hans ævi. Hér sé full atvinna og lífskjör hafi snarbatnað. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um fjórðung úr prósenti í dag. 

Þetta er annar vaxtaákvörðunardagurinn í röð þar sem vextir lækka. Meginvextir á sjö daga bundnum innlánum eru því 4,5%.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að horfur séu á hröðum hagvexti á árinu og útlitið hafi lítið breyst frá síðustu spá bankans. Vöxturinn sé sem fyrr drifinn áfram af örum vexti í ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit sé fyrir töluverða slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár. Verðbólga sé áþekk því sem hún hefur verið undanfarið misseri, en undirliggjandi verðbólga virðist hafa minnkað. Þá hafi verðbólguvæntingar til bæði skamms og langs tíma minnkað. Skýr merki séu um spennu í þjóðarbúskapnum sem kalli á peningalegt aðhald. Að mati Seðlabankans er efnahagsástandið hér á landi mjög gott um þessar mundir og að mati seðlabankastjóra jafnvel betra en nokkru sinni.

„Ég held að á minni ævi hafi efnahagsástandið aldrei verið betra. Við erum með fulla atvinnu og rúmlega það, lífskjörin eru að batna, talið í tveggja stafa tölu á einu ári. Við erum með miklu meiri varasjóði alls staðar, miklu stærri gjaldeyrisforða heldur en við höfum nokkurn tíma verið með nema kannski hlutfallslega í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Við erum með miklu meira eigið fé í bankakerfinu, miklu meira laustd fé. Við erum með viðskiptaafgang og það verulegan og við eigum meiri eignir í útlöndum heldur en við skuldum. Þannig að ég man ekki eftir neinu slíku og óvenju gott,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Með stýrivaxtalækkuninni ættu vextir á lánum fólks og fyrirtækja að lækka, en um leið lækka vextir á innistæðum sparifjáreigenda.

„Sem betur fer eru raunvextir á Íslandi jákvæðir þrátt fyrir þessa lækkun á meðan að í löndunum í kringum okkur er verið að berjast við að reyna að berja hagvöxtinn upp og atvinnuleysið niður á kostnað þess að umbun fyrir sparnað er nánast engin,“ segir seðlabankastjóri.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV