Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir búvörusamninga dauðadóm yfir mjólkurbúum

21.02.2016 - 11:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur M. Magnússon, forstjóri mjólkurbúsins Kú, er afar ósáttur við nýja búvörusamninga og segir þá slá skjaldborg um Mjólkursamsöluna. Hann segir allt verðlagningarvald fært til MS og nýju samningarnir séu því dauðadómur yfir sjálfstæðum afurðastöðvum í mjólkuriðnaði í landinu.

Ólafur segir samningana alvarlega aðför að hagsmunum neytenda. Mjólkursamsölunni sé fært allt verðlagningarvald samkvæmt 12. grein samningsins. Hagsmunum sjálfstæðra afurðastöðva sé því kastað fyrir róða. Í 12. greininni segir: 

Afurðastöðvum verður heimilað að verðleggja mjólk til framleiðenda og ákvarða heildsöluverð á mjólkurafurðum. Þó skal opinber aðili ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks fram til 1. janúar 2021, sem byggi á skilgreindri vísitölu framleiðslukostnaðar og upplýsingum um afkomu bænda. 

Þá sé einnig slegið skjaldborg um undanþágur Mjólkursamsölunnar frá Samkeppnislögum. Það sé undarlegt þar sem MS sé til rannsóknar af hálfu Samkeppniseftirlitsins og eftirlitsstofnun EFTA fyrir alvarleg og ítrekuð brot á samkeppnislögum. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýndi greinina í gær og sagði hana viðhalda einokun á mjólkurmarkaði. „Það er í rauninni verið að setja ákveðið eftirlit með verðlagningu Mjólkursamsölunnar á hrámjólk til sinna keppinauta, sem er ágætt til skamms tíma litið, en til lengri tíma er verið að hunsa öll tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að það eigi að afnema þessa undanþágu frá samkeppnislögunum og jafnvel að brjóta mjólkursamsöluna upp, þetta er afskaplega óheilbrigt ástand á þessum markaði og búið að setja það núna í samning til tíu ára að það eigi að viðhalda því.“

Sigurður Loftsson, formaður Félags kúabænda, tók ekki undir að það sé verið að festa einokun í sessi. „Það eru sett sterk og ákveðin tekjumörk á fyrirtækið á markaðnum og öll verðlagning sem í kringum þetta er þarf að staðfestast af opinberum aðila þannig að líkurnar á því að fyrirtækið geti misnotað sína markaðsráðandi stöðu eins og það er kallað, hún er í rauninni engin.“