Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir bresku dátana hafa verið sólgna í bjór

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Bjórflöskur og hárvörur er meðal þess sem fundist hefur í leifum braggahverfis á Hellisheiði þar sem hermenn bjuggu í seinni heimsstyrjöld. Fornleifafræðingar segjast geta sagt öðruvísi sögur úr stríðinu en áður hafa verið skráðar.

Þegar Bretar hernámu Ísland árið 1940 fóru þeir víða um landið og reistu sér stöðvar. Á Núpafjalli, austast á Hellisheiði var ratsjárstöð og þó nokkur starfsemi.

Fornleifafræðingar rannsaka nú og kortleggja þá staði sem herinn kom sér fyrir á. Þegar minjar verða 100 ára hljóta þær sjálfkrafa vernd sem menningararfur, en það eru ekki nema 74 ár síðan þessi staður var yfirgefinn.

„Þeir fóru árið 1945 og búðirnar voru teknar niður en eins og sjá má allt umhverfis eru enn spor eftir búðirnar. Við urðum ekki undrandi á því sem við fundum en undruðumst líkindin með þessum stað við aðra slíka staði,“ segir Oscar Aldred einn fornleifafræðinganna sem rannsaka herminjarnar.

Stórt svæði á Hellisheiði

Hópurinn hefur fengið styrk úr Fornminjasjóði til að kanna valda hernámsstaði á Íslandi en þar sem minjarnar hafa ekki hlotið lagalega vernd eru rannsóknarstaðir valdir í samstarfi við landeigendur.

Mynd með færslu
Fornleifafræðingar að störfum. Mynd úr safni.  Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

„Akkúrat hérna þar sem við stöndum núna voru einir sex braggar en samkvæmt þeim heimildum sem við höfum þá voru einir 15 braggar á þessu svæði,“ segir Þóra Pétursdóttir annar fornleifafræðingur sem kannar svæðið á Hellisheiði. „En svæðið er líka mjög dreift. Hér erum við kannski í stærsta komplexinum en svo höfum við ratsjárstöðina og nokkrar byggingar í tengslum við hana uppi á heiðinni og svo höfum við fleiri staði annars staðar á heiðinni.“

Spurð hverju fornleifaleitin hafi skilað á Núpafjalli segir Þóra að mikið liggi á yfirborðinu. „Við höfum fundið eitt og annað. Það er náttúrlega mjög mikið af byggingarleifum, en líka persónulegir munir eins og greiður, tannburstar, hárlakk, skóhælar, peningar og þess háttar.“

Afi fornleifafræðingsins í hernum

Oscar Aldred hefur sérstaka tengingu við hernámsstaðina á Íslandi því bæði hefur hann búið og starfað hér á landi sem fornleifafræðingur í fjölda ára og afi hans þjónaði í breska hernum á stríðsárunum og var sendur til Íslands. Hann var við eftirlit á Hvítanesi í Hvalfirði, þar sem fornleifarannsókn var gerð fyrr í sumar.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Afi Oscars Aldred dvaldi á Hvítanesi í Hvalfirði á stríðsárunum.

Spurður hvort það sé ekki sérstakt að vera í hlutverki fornleifafræðings og kanna spor nákominna ættingja segir hann það vissulega vera einstakt. Hluti af verkefni fornleifafræðinganna sé að varpa betur ljósi á áhrif hernámsins á Ísland og kanna hvernig hermennirnir lifðu hér.

„Við getum fjallað um hvernig hermennirnir bjuggu hér, hvernig þeim leið á suman hátt,“ segir Aldred. „Þeir höfðu úrval af greiðum og hárvatni og þess háttar; drukku mikið af bjór, sem segir okkur eitthvað. Svo þetta er margbrotin saga sem við getum sagt sögur af.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV