Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir Birgittu hafa hringt með fyrirmæli

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ritari Pírata á Vesturlandi segir að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafi hringt í sig og reynt að hafa áhrif á uppröðun á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Fleiri flokksmenn segja Birgittu hafa hvatt til þess að listi flokksins yrði ekki samþykktur. Hún hafnar ásökununum.

Fannst símtalið óheiðarlegt

Ágúst Beaumont, ritari Pírata á Vesturlandi, átti sæti í kjördæmisráði Norðvesturkjördæmis. Hann segir að Birgitta hafi reynt að hafa áhrif á uppröðun á lista flokksins í kjördæminu, eftir að fyrri kosning lá fyrir. 

„Birgitta hringir í mig þegar ég er staddur á Sauðárkróki, með þann lista sem var fyrst kosinn, og ég var staddur úti á svölum að fá mér sígarettu, og við spjöllum saman og hún lýsir yfir óánægju sinni með listann og það að Gunnar Ingiberg skildi ekki hafa hlotið betra sæti og setur mér það verkefni að sjá til þess að hann komist í að minnsta kosti þriðja sæti, en að sjálfsögðu helst í annað,” segir hann. „Mér fannst þetta mjög óheiðarlegt að þingmaðurinn skuli hafa beðið um þetta. Þetta er ekki píratalegt, þetta er ekki það sem við viljum standa fyrir.” 

Segir símasmölun hafa átt sér stað

Gunnar lenti í sjötta sæti í fyrra prófkjörinu, en listinn var felldur af Pírötum á landsvísu eftir að oddvitinn, Þórður Pétursson, var sakaður um smölun. Eva Pandóra Baldursdóttir leiðir listann eftir seinna prófkjörið og Gunnar Ingiberg, sem Birgitta er sögð hafa talað fyrir, er í öðru sæti. 
„Því miður er auðvitað maðkur í mysunni með annað sætið, þar sem að þar var símasmölun. Það var verið að smala fólki í kosningar í gegn um síma,” segir Ágúst. „Og ég hef það viðurkennt frá Gunnari Ingiberg.” 

Fleiri Píratar hafa svipaða sögu að segja

Fleiri Píratar hafa stigið fram í dag og haft svipaða sögu að segja. Lilja Magnúsdóttir, sem sat einnig í kjördæmisráði, sendi fjölmiðlum grein í dag þar sem hún fullyrðir að Birgitta hafi hringt í fjölda fólks í flokknum og hvatt til þess að framboðslisti flokksins í kjördæminu yrði felldur. Það sama segir Hafsteinn Sverrisson, fyrrverandi varaformaður Pírata á Vesturlandi.

Birgitta svarar ekki en hafnar ásökunum í yfirlýsingu

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Birgittu í dag, en í yfirlýsingu hafnar hún öllum ásökunum. Þar segir hún: 

Á mig eru bornar mjög alvarlegar ásakanir um að ég hafi reynt að hafa áhrif á prófkjör Pírata í Norð-Vesturkjördæmi. Ég vil af því tilefni segja eftirfarandi: Ég hef ekki hringt í fólk í þeim tilgangi að hvetja það til að kjósa á einhvern tiltekinn hátt í prófkjörum Pírata undanfarnar vikur. Ég hef heldur ekki farið fram á að fólki sé raðað á lista eftir einhverri tiltekinni röð, né að listum sé hafnað, hvað þá að ég hafi skipað fyrir um nokkuð í því samhengi; enda hafði ég ekki til þess umboð, vald eða vilja. Sjálf átti ég í erfiðleikum með að ákveða hvernig ég ætti að nýta minn kosningarétt í staðfestingarkosningu fyrir Norð-Vesturkjördæmi, einmitt vegna þess að málefni listans voru flókin og báðar hliðar höfðu eitthvað til síns máls.

Ég vil gjarnan funda með hlutaðeigandi við fyrsta tækifæri til að reyna að skilja hvernig viðkomandi upplifði atburðarás undanfarinna vikna. Hafi upplifun einhverra verið sem svo að ég hafi verið að hlutast til um hvernig málefnum Norð-Vesturkjördæmis ætti að vera háttað, þá var það alls ekki minn ásetningur.

Ég hef fulla trú á því að við Píratar getum leyst þetta í sameiningu þannig að við komum sterkari út úr þessari prófraun. Það er mín ósk að við förum vandlega yfir allt það sem á undan hefur gengið, lærum af reynslunni og byggjum upp sterkari ferla fyrir framtíðina.