Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir betra að aka börnum á milli en laga sundlaugina

23.02.2020 - 14:59
Mynd: Skjáskot / RÚV
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar vill aka nemendum grunnskóla Reyðarfjarðar í sundkennslu í nærliggjandi þorp. Því mótmæla foreldrar og vilja að sundlaugin verði löguð. Bæjarstjóri hefur áhyggjur af því að tímabundin lagfæring á henni þýði að börnin haldi áfram að gleypa eitraða málningu í sundinu.

Fyrir rafveituna fengust fyrir skatt 570 milljónir króna sem á að verja í innviði á Reyðarfirði. Ekki var skilgreint nákvæmlega hvað ætti að gera. Sveitarfélagið stefnir á að halda íbúafund um mánaðamótin.

„Þar verður rætt hvað Reyðfirðingar vilja gera við peningana, þannig að þessi mál verða skoðuð heildstætt,“ segir  Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð.

240 milljónir í fótboltahöllina

Líklegt þykir að hluti fjárins fari í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Gervigras í fótboltahöllinni er löngu komið á tíma og það á að laga fyrir 40 milljónir. Þá gæti kostað um 200 milljónir að einangra húsið sem er stundum kallað frystikistan.

20 milljónir í sundlaugina

En það er líka kominn tími til að bæta aðgengi við íþróttahúsið við Grunnskóla Reyðarfjarðar og sundlaugina, sem er reyndar samnýtt. Sundlaugin er nefnilega undir gólfinu á íþróttahúsinu. Hún hefur verið notuð til sundkennslu í maí og september. Heilbrigðiseftirlitið lokaði henni í fyrravor þar sem málningaragnir sáust bersýnilega í vatninu.

Það myndi kosta tæpar 20 milljónir að koma sundlauginni í sæmilegt stand, enda múrskemmdir víða. Í minnisblaði bæjarstjóra segir að það hefði kostað fjórar milljónir að háþrýstiþvo laugina og mála. „Mín niðurstaða er sú að með tilliti til skýrslu sérfræðinga þá myndi málningin strax flagna af. Þá myndu börnin vera að gleypa eitraða málningu í sundinu,“ segir Karl Óttar jafnframt.

13 milljónir í akstur í sundkennslu

Börnum verður því ekið í sundkennslu á Eskifirði eða Fáskrúðsfirði. Áætlað er að það kosti rúmar 10 milljónir á ári, auk allt að þriggja milljóna í starfsmannakostnað.   „Þó að það sé aldrei góður kostur að keyra börn á milli þá er það betri kostur.“

Foreldrar vilja laga sundlaugina

Því mótmæla foreldrar, Ungmennafélag og Íbúasamtök Reyðarfjarðar sem vilja að laugin verði löguð. Öryggi barna sé betur tryggt þannig en með því að keyra á milli. „Auðvitað er það alltaf möguleiki ef Reyðfirðingar myndu kjósa það að í staðinn fyrir að laga íþróttahúsið að laga sundlaugina og setja pening í það. Það verður íbúafundur þar sem þetta verður skoðað.“

Söluverð rafveitunnar var 570 milljónir. Hluti af þeim fer í skatt. „Við höfum fengið 400 milljónir til okkar, hluti af þeim eru til skoðunar hjá samkeppniseftirlitinu. þannig það á eftir að koma í ljós hvað endanlega þetta verður mikið. Við eigum eftir að borga skatt af þessu, suður til Reykjavíkur. Við höfum sent fjármálaráðherra bréf en ekki fengið svar.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV