Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir bensínverð Costco varpa ljósi á fákeppni

22.05.2017 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Innkoma bandaríska verslunarrisans Costco á íslenska eldsneytismarkaðinn á að öllum líkindum eftir að hreyfa mikið við markaðnum. Þetta segir Jón Kristján Sigurðsson, ritstjóri FÍB-blaðsins. Costco býður félögum í Costco-klúbbnum bensín á tæplega 170 krónur lítrann, á meðan bensínlítrinn kostar tæplega 186 krónur þar sem hann er ódýrastur hjá íslensku olíufélögunum, samkvæmt vefnum GSMbensín. Bensínlítrinn er því tæplega 9% ódýrari hjá Costco.

Jón Kristján sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að þetta sýndi svo ekki yrði um villst að fram til þessa hefði ríkt fákeppnismarkaður hér á landi í mörg ár. „Ég held að við getum alveg sagt okkur það að þessi innkoma þeirra, hún mun að öllum líkindum hreyfa mikið við markaðnum,“ segir Jón Kristján. Nú sé útlit fyrir að forsvarsmenn olíufélaganna setjist niður og spái í framhaldið. „Og það kæmi okkur ekkert á óvart að þeir myndu lækka verðið. Ég get ekki séð annað en að þeir þurfi alla vega að skoða stöðuna mjög alvarlega.“

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV