Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir árásir á Albertínu „nánast annað mál“

03.08.2019 - 21:31
Mynd með færslu
 Mynd: Samfylkingin
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að árásir tveggja þingmanna Miðflokksins á Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, séu nánast annað mál, nú þegar forsætisnefnd hefur klárað Klausturmálið. Bæði Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, sem sérstök forsætisnefnd taldi hafa brotið siðareglur þingmanna með ummælum sínum á Klaustri í nóvember, sökuðu Albertínu um áreitni í andmælum sínum við áliti siðanefndar.

Gunnar Bragi sagði í andmælabréfi sínu að á Klausturupptökunum megi heyra tvo einstaklinga segja frá miður góðum kynnum af „þingkonunni og hvernig hún áreitti þá.“ Hann standi við hvert orð en viðurkenni að það hafi verið of gróft að nota orðið nauðgun. 

Bergþór Ólason sagði í andmælabréfi sínu að það sé alveg galin staða að vera útmálaður sem gerandi í þessu máli þegar raunin hafi verið þveröfug. „Ég er að lýsa því þegar núverandi þingkona gekk svo nærri mér kynferðislega að ég var lengi að átta mig á því hvað hafði gerst.“ Bergþór tók skýrt fram að hann hefði hvorki dregið orð sín til baka né beðist afsökunar á orðum sínum um Albertínu.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, var gestur Vikulokanna á Rás 1 í morgun. Þar sagði hún viðbrögð þingmannanna með miklum ólíkindum og að árásir Gunnars og Bergþórs á Albertínu væru eiginlega annað mál. „Ég er eiginlega orðlaus og reið og finnst þeir setja sig mikið niður þegar ég hélt að það væri ekki hægt. Við konur getum ekki sætt okkur við að það að kjörnir fulltrúar ráðist með þessum hætti að nafngreindum konum og konum almennt.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði þingmenn Miðflokksins ekki sýna neina skömm eða iðrun heldur bættu eiginlega í. „Þeir segjast vera fórnarlamb, hjóla af öllu afli í kvenkyns þingmann og gera lítið úr þolendum kynferðisofbeldis sem er þessum þingmönnum verulega til vansa.“ Rósa taldi þó rétt að endurskoða ferlið og eitt af því sem þyrfti að gera væri að aftengja forsætisnefnd. Þá taldi hún að þingmenn sem brytu gegn siðareglum ættu ekki að fá að gegna trúnaðarstörfum tímabundið. Rósa gaf lítið fyrir ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að þetta væri pólitísk sneypuför. Þetta væri sneypuför þessara þingmanna.

Albertína hefur ekki gefið kost á viðtali vegna skrifa Gunnars Braga og Bergþórs. Í viðtali við RÚV í nóvember sagði hún hrikalega upplifun að ásakanir um hana hafi komið fram á upptökunum. Þessar ásakanir væru þvættingur og að Gunnar Bragi hefði beðið sig afsökunar. „Ég er búin að ræða við Gunnar Braga sem hefur gefið mér leyfi til þess að draga þessi orð sín til baka.“ Hvorki hefur náðst í Gunnar Braga né Bergþór.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV