Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir að viðhaldsleysi auki utanvegaakstur

18.06.2019 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi Eystr - RÚV
Margar hálendisleiðir hafa verið opnaðar og er þónokkur umferð um Herðubreiðarlindir inn að Öskju. Skálar Ferðafélags Akureyrar voru opnaðir um helgina og er útlit fyrir fína aðsókn í sumar. Bílstjóri gagnrýnir viðhaldsleysi á veginum að Öskju, sem stuðli að utanvegaakstri. 

Mikil umferð er jafnan inn að Öskju og um Herðubreiðarlindir á sumrin. Ferðafélag Akureyrar rekur Þorsteinsskála og Dreka, en báðir skálar voru opnaðir um helgina. Félagar úr ferðafélaginu fór uppeftir á laugardaginn til þess að gera allt klárt, koma vatni á húsin og sinna viðhaldi.

Eiga von á svipuðum fjölda og í fyrra

Íris Eva Stefánsdóttir, skálavörður, er nú stödd í Dreka þar sem er snjókoma og hiti við frostmark. Hún segir að fjöldi bókana í gistingu sé svipaður og síðustu ár. „Þetta fer svona rólega af stað, sérstaklega ef veðrið er ekki til friðs. En við eigum von á mikilli traffík í júlí og ágúst,“ segir Íris. 

Gísli Rafn Jónsson er bílstjóri hjá Mývatn Tours sem hefur stundað Öskjuferðir frá 1980. „Bókunarstaðan er ágæt, svona eins og menn óttuðust svolítið afbókanir og annað þá höfum við ekki orðið vör við það að menn séum að afbóka,“ segir Gísli. Sumir bóki ferðir langt fram í tímann en aðrir með stuttum fyrirvara og þá hafi veðrið allt að segja. 

Vegurinn oft eins og þvottabretti

Enn er snjór efst á veginum, um kílómetra frá bílastæðinu, sem skapar vandræði, því það er strax þónokkur umferð bílaleigubíla um svæðið. En vegurinn að Öskju er ekki sérlega góður. Gísli segir að malarhlassi hafi ekki verið keyrt í hann í mörg ár. Hann gagnrýndi viðhaldsleysi á veginum fyrir tveimur árum og segir að staðan sé síst betri í dag.  „Og það er kannski verið að hefla veginn þrisvar yfir sumarið og það er bara alltof alltof lítið, þannig að við erum að fá alltof mikil þvottabretti og vondan veg, bara ófær á köflum má segja,“ segir Gísli. 

Utanvekaakstur fylgi lélegu viðhaldi

Bílar skemmist fyrir vikið, en það sé líka lykilatriði í náttúruvernd að halda veginum eins góðum og hægt er. „Þegar vegurinn er orðinn vondur þá stóreykst utanvegaakstur og mér finnst svolítið skrítið að þjóðgarðurinn skuli ekki leggjast meira á árar með það að sýna fram á það að þegar vegurinn er vondur þá stóreykst utanvegaakstur. Við sjáum það bara sem förum um svæðið,“ segir Gísli.