Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að taka beri niðurstöður Pisa alvarlega

06.12.2019 - 08:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hjá Akureyrarbæ er þegar hafin vinna í þá átt að bregðast við slakri útkomu úr nýjustu Pisa rannsókninni. Sviðsstjóri fræðslumála þar segir að taka beri niðurstöðurnar alvarlega og skoða hvort taka þurfi upp aðra starfshætti við kennslu. 

Nemendur á landsbyggðinni standa sig verr á öllum sviðum nýjustu Pisa-könnunarinnar en nemendur í Reykjavík og nágrenni. Þá eru reykvískir nemendur þeir einu sem bæta sig í lesskilningi en lesskilningur annars staðar er nær alls staðar á niðurleið.

Ákveðin vísbending um hver staðan er

Akureyri er stærsta sveitarfélagið utan höfuðborgarsvæðisins og þar er starfsemi í níu grunnskólum í vetur. „Mitt álit er fyrst og fremst það að við tökum þessum niðurstöðum alvarlega og teljum þetta ákveðna vísbendingu um hver staðan er hjá okkur,“ segir Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar.

Líta í eigin barm og vinna úr niðurstöðunni

Og nú þurfi að líta í eigin barm og ákveða hvað eigi að gera til að bregðast við þessari stöðu. „Kanna það hvaða starfshættir eru viðhafðir, hvernig við erum að meta og taka höndum saman um að vinna úr þessum gögnum sem liggja fyrir,“ segir hann.

Fundur með skólastjórum allra grunnskólanna

Á miðvikudagsmorgun voru allir skólastjórar grunnskóla Akureyrarbæjar boðaðir á fund þar sem þessi vinna hófst. Í næstu viku verður stærri hópur kallaður saman og lagt á ráðin um úrbætur í starfsháttum skólanna. Karl segir þekkt að starfshættir kennara séu stærsti áhrifavaldurinn í námi barna og því þurfi meðal annars að taka höndum saman og auka ráðgjöf og stuðning við kennara. „Og við þurfum kannski fyrst og fremst að koma okkur saman um það hvernig við ætlum að meta framfarir barna í námi yfir höfuð, þannig að við getum brugðist við sem fyrst ef út af bregður.“