Segir að starfsemin rúmist innan Landhelgisgæslunnar

16.02.2020 - 20:06
Mynd: RÚV / RÚV
Verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar telur skynsamlegra að fullnýta flugvélar og þyrlur gæslunnar í sjúkraflutninga áður en farið sé í að kaupa eða leigja minni þyrlur.

 

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að kanna kosti þess að hefja tilraunaverkefni með  sérhæfðum sjúkraþyrlum sem taldar eru geta stytt viðbragðstíma í alvarlegum slysum og veikindum um rúman hálftíma. 

Sérhæfðar sjúkraþyrlur hafa verið í notkun í löndunum í kringum okkur um áratugaskeið. Þær eru mun minni en þær þyrlur sem Landhelgisgæslan hefur notað til sjúkraflutninga hér á landi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í sjónvarpsfréttum að þetta komi til með að styrkja sjúkraflutninga verulega.

Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, segir að skynsamlegra væri að nýta fjármuni í að styrkja þyrlustarfsemi sem þegar sé til staðar. 

 

„Það er búið að gera heilmikið. Það er verið að bæta við áhöfnum og búið að endurnýja leiguvélarnar og verið að kaupa þyrlur. Við teljum skynsamlegast að fullnýta þessi tæki áður en farið er í að kaupa eða leigja minni þyrlur. Það er hægt að stytta viðbragðstímann með því að setja staðarvakt og opna starfsstöðvar úti á landi. Það er hægt að gera það innan okkar reksturs fyrir þetta fé. Þannig að við teljum það skynsamlegri leið.“

Tilraunaverkefnið miðast við að notuð verði ein þyrla af gerðinni H135. Árlegur kostnaður vegna sjúkraþyrlu og áhafnar er talinn nema 650 til 750 milljónum króna.

Auðunn segir að álit gæslunnar hafi komið fram í meirihlutaáliti starfshóps um sjúkraflug með þyrlu frá árinu 2018 að litlar þyrlur án afísingarbúnaðar hafi mjög takmarkaða getu á Íslandi út af veðri, sérstaklega á veturna. Þetta sé byggt á áratuga reynslu á rekstri þyrla í björgunar- og sjúkraflugi. 
 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV