Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að nú verði loks ráðist í framkvæmdir

Mynd: Rúv / Kastljós
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, sagði að lengi hefði verið rætt um ójafnrétti kynjanna en nú ætti að ráðast í framkvæmdir til að ná því markmiði. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir óásættanlegt að ríkisfyrirtæki taki ákvarðanir um að beina ekki viðskiptum sínum til ákveðinna aðila á grundvelli sjónarmiða sinna um jafnrétti kynjanna.

Stefna bankans óásættanleg

Íslandsbanki ætlar að hætta viðskiptum við þá fjölmiðla sem ekki standast tiltekin skilyrði um kynjahlutföll meðal þáttagerðarfólks og viðmælenda. Óli Björn segir, í Kastljósi kvöldsins, að allir geti verið sammála um það að aukið jafnrétti sé skynsamlegt fyrir samfélagið.

„En það getur ekki verið ásættanlegt að ríkisfyrirtæki taki sig til, fari og kortleggi starfsemi fjölmiðla; ekki bara hverjir vinna þar og af hvaða kyni þeir eru, heldur líka viðmælendur þeirra og svo framveigis, og taki ákvörðun út frá því, vegna þess að viðkomandi ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki er ósátt við eitthvert jafnvægi sem þeim finnst að ætti að ríkja.“ Út frá þeim sjónarmiðum ætli þau svo ekki að eiga viðskipti við, eða beina viðskiptum sínum til viðkomandi aðila. 

Viðbrögðin komu á óvart

Hulda Ragnheiður sagði að viðbrögðin og umræða um tillögu bankans hefðu komið henni á óvart. Lengi hefði verið talað og rætt um mikilvægi jafnréttis en minna hefði verið ráðist í framkvæmdir til að ná því fram. Loksins ætti að framkvæma. Það verði svo til þess að umræðan komist á næsta stig.  

„Ég held að þegar upp er staðið þurfum við að vinna saman að þessum markmiðum,“ sagði hún. Jafnrétti væri sameiginlegt hagsmunamál allra sem þessa jörð byggja. Óli Björn sagði að það ætti einnig við um sjálfstæði fjölmiðla. 

Fjármálaráðherra segir tvískinnung í stefnunni

Rætt var um áform bankans á Alþingi í dag. Fjármálaráðherra sagði að bankar í eigu ríkisins eigi að starfa í samræmi við eigendastefnu ríkisins. Þá telji hann tvískinnung í því að hyggjast einungis gera þetta að aðalatriði í stefnunni á útgjaldahlið bankans en ekki tekjuhliðinni. 

„Ætla menn þá að neita viðskiptum við þá sem starfa ekki samkvæmt þessari hugmyndafræði en þegar þeir ætla að  koma og eiga í viðskiptum við bankann þannig að hann hagnast á því en þegar bankinn þarf að líta á það sem kostnað eða útgjöld þá sé það einhver önnur flokkun sem eigi við.“   

Bankinn ætli að nýta afl sitt í þvingunarskyni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kvað sér einnig mál á Alþingi vegna þessa og sagði að Íslandsbanki, í eigu ríkisins, hygðist nýta afl sitt í þvingunarskyni og refsa fjárhagslega þeim sem ekki fylgja stefnu bankans. Hann spurði hvort slíkt væri ekki sérstaklega óhugnanlegt þegar banki hlutaðist til um rekstur fjölmiðla.

Edda Hermannsdóttir, yfirmaður samskipta og greininga hjá Íslandsbanka, segir hins vegar að fyrirtækið ætli ekki að skipta sér af rekstri eða efnistökum fjölmiðla, þótt svo fyrirtækið ætli í framtíðinni að ákveða auglýsingakaup með hliðsjón af kynjahalla í fjölmiðlum. Bankinn vilji nýta innkaup sín til góðs.