Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir að norskur makríll sé verðmætara hráefni

29.08.2019 - 12:45
Vinirnir Smári Geirsson og Guðmundur Bjarnason fyrrum starfsmannastjóri og stjórnarmaður í Síldarvinnslunni fór á makríllveiðar með Berki NK haustið 2014.
 Mynd: svn.is
Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir það að bera saman verð fyrir makríl í Noregi og á Íslandi svipað og að bera saman epli og appelsínur. Norskur makríll sé allt annað og verðmætara hráefni en makríll veiddur hér. Í úttekt Verðlagsstofu skiptaverðs kemur fram mjög mikill verðmunur á makríl á Íslandi og Noregi.

Verðlagsstofa skiptaverðs hefur tekið saman hráefnisverð og afurðaverð fyrir makríl á Íslandi og Noregi 2012-2018. Þar kemur fram að verð fyrir makríl er margfalt hætta í Noregi en hér á landi og munar þar mest yfir 200 prósentum.

Norðmenn geti stýrt sínum makrílveiðum betur

Jens Garðar Helgason, formaður SFS segir ekki hægt að bera saman makrílverð í þessum tveimur löndum með þessum hætti. „Þegar verið er að tala um makríl í þessu tilfelli þá er í rauninni verið að bera saman epli og appelsínur. Norðmenn veiða makríl þegar þeir vilja og geta stjórnað sínum makrílveiðum miklu betur. En við veiðum makríl þegar við þurfum, af því að það er nú bara þannig að makríllinn kemur bara ákveðið tímabil inn í íslanska lögsögu.“

Makríll veiddur hér allt önnur gæðavara

Þetta segir Jens þýða að íslenk uppsjávarskip séu að veiða allt aðra gæðavöru en norsk. „Sem sýnir sig meðal annars í því að 70% af útflutningi Norðmanna á makríl er til Asíu, meðan að aðeins 20% af útflutningi okkar á makríl er til Asíu, sem eru best borguðustu markaðirnir.“

Munurinn á hráefnisverði mun meiri en á afurðaverði

Í úttekt Verðlagsstofu er hins vegar mun meiri munur á hráefnisverði sem sjómenn fá greitt meðal annars og söluverði á erlendum mörkuðum. En Jens segir þetta fyrst og fremst snúast um gæði vörunnar. „Við erum bara að taka saman, akkúrat núna, öll gögn er snúa að þessu máli. En að langstærstum hluta er það þannig að við erum bara með tvær ólíkar vörur í höndunum, Íslendingar og Norðmenn og erum með tvo ólíka markaði og þetta útskýrist að langstærstum hluta af því.“  

Íslenskir uppsjávarsjómenn séu tekjuhærri en norskir

Ýmsir hafa brugðist við þessarri úttekt Verðlangstofu og meðal annars hefur Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Akraness, kallað eftir opinberri rannsókn á þesum mikla verðmun og kjörum sjómanna í því samhengi. „Það kemur nú í rauninni bara á daginn að íslenskir uppsjávarsjómenn eru launahæstu sjómenn í Norður-Atlantshafi. Þeir hafa umtalsvert betri tekjur heldur en kollegar þeirra í Noregi. Þannig að ég hafna því algerlega að það sé verið að hlunnfæra íslenska uppsjávarsjómenn,“ segir Jens Garðar.