Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir að Markús hafi ekki verið vanhæfur

06.12.2016 - 15:46
Mynd: RÚV / RÚV
Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, var ekki vanhæfur til þess að dæma í málum sem tengdust Glitni og fyrrverandi starfsmönnum hans eftir hrun. Þetta segir Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Markús hafi ekki átt fjárhagslegra hagsmuna að gæta þegar hann dæmdi í málunum. Sigurður Tómas telur að Markúsi hafi ekki borið skylda til að tilkynna um fjárfestingar sínar í gegnum eignastýringu Glitnis.

Hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson áttu í viðskiptum með hlutabréf í Glitni fyrir hrun. Þetta kom fram í Kastljósi í gærkvöldi. Tilkynningar um hlutabréfaeignina hafa ekki fundist hjá sérstakri nefnd dómara sem heldur utan um slíkar upplýsingar.

Markús átti hlutabréf fyrir tugi milljóna í Glitni. Bréfin seldi hann með rúmlega 30 milljóna króna hagnaði í byrjun árs 2007. Eftir það fjárfesti Markús fyrir um 60 milljónir króna í gegnum einkabankaþjónustu Glitnis, mest í gegnum Sjóð 9. Skömmu fyrir hrun leysti Markús peningana út, með sjö til tíu milljóna króna tapi.

Markús segir að hann hafi tilkynnt um viðskiptin með hlutabréf í Glitni. Honum hafi hins vegar ekki borið að tilkynna um fjárfestingar í gegnum eignastýringu Glitnis og að hann hafi gætt að hæfi sínu í dómsmálum sem varða Glitni.

Eðlisólík mál

„Almenn viðbrögð mín eru þau að allar upplýsingar eru til góða,“ segir Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Sigurður Tómas hefur meðal annars unnið sem ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, auk þess sem hann var settur ríkissaksóknari í málum gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

„Það þarf að ríkja traust til dómstólanna. En jafnframt er mikilvægt að umfjöllun um dómstólana sé sanngjörn og að allar upplýsingar sem koma fram, að þeim sé gert jafnhátt undir höfði vegna þess að dómstólar eiga ekki gott með að verja sig. Það er þeirra eðli.“

Forseti Hæstaréttar segir að sér hafi lögum samkvæmt ekki borið að tilkynna um fjárfestingar í gegnum eignastýringu Glitnis enda hafi hann með þeim ekki orðið hluthafi í félagi – ertu sammála þessu?

„Ég er algjörlega sammála þessu. Ég tel þetta vera eðlisólíkt að eiga eignarhlut í tilteknu félagi, eða að eiga hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði þar sem þú getur engin áhrif haft á hvaða félög eru þar inni eða hvort það séu skuldabréf, hlutabréf, ríkisskuldabréf eða hvað það er. Þannig að ég tel þetta eðlisólíkt og er sammála túlkun forseta Hæstaréttar.“

En í gegnum þennan sjóð átti hann samt hagsmuna að gæta í gegnum félög á Íslandi.

„Það kann að vera á hverjum tíma en þeir hagsmunir eru breytilegir frá degi til dags eftir því hvernig eignastýringin var. Auk þess sem þetta eru frekar óbeinir hagsmunir vegna þess að þetta er dreift eignasafn. Þannig að ég myndi telja að þetta sé á engan hátt sambærilegt.“

Fjárhagslegir hagsmunir liðnir undir lok

Markús segir að hann hafi gætt að hæfi sínu í dómsmálum sem varða Glitni. En er það nóg?

„Er það nóg? Það þarf að skoða hvert einasta tilvik fyrir sig. Þarna erum við fyrst og fremst að tala um hæfi til meðferðar einstaks máls. Þarna koma annars vegar til greina fjárhagslegir hagsmunir, eða þá einhvers konar óvild eða kali til starfsmanna. Hvað fjárhagslegu hagsmunina varðar tel ég að þeir hafi allir verið liðnir undir lok þegar þessi dómsmál koma. Það eru engir fjárhagslegir hagsmunir lengur sem Markús hefur af einni niðurstöðu eða annarri í málunum. Hvað hitt varðar, hvort það geti verið kali eða ekki kali, þá þarf einfaldlega að skoða það. Mér sýnist að Markús Sigurbjörnsson hafi nú frekar hagnast á viðskiptum við Glitni þegar upp er staðið. Þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að hann sé með sérstakan kala út í það. Auk þess sem þetta virðast ekki vera svo miklir hagsmunir að það geti riðið baggamun í því. Það verður samt að skoða hvert einasta tilvik og af þeim dómum sem ég hef verið að skoða hef ég ekki rekist á neitt tilvik sem ég tel athugavert.“

En þarf hlutleysi dómara ekki að vera hafið yfir allan vafa, ekki bara í hans eigin huga heldur líka í huga almennings?

„Það er alveg hárrétt. Það þarf að horfa til margra þátta. Það þarf að horfa til aðila málsins. En það sem skiptir fyrst og fremst máli er að einhver hlutlaus utanaðkomandi aðili líti þannig á málið, hvort það sé réttmætt tilefni til að draga óhlutdrægni dómarans í efa. Þetta undirstrikaði Mannréttindadómstóll Evrópu í máli Guðrúnar Erlendsdóttur.“

Þar var hún einmitt fundin vanhæf vegna þess að eiginmaður hennar hafði nýlokið skuldauppgjöri við Landsbankann – er þetta ekki nokkuð sambærilegt?

„Að öllu leyti ósambærilegt tel ég vegna þess að í því máli snérist það um að Guðrún Erlendsdóttir hafði sett að veði fasteign fjölskyldunnar sem var í séreign hennar til tryggingar ¼ af skuldum. 75% voru felld niður. Og á sama tíma var verið að undirbúa mál einstaklings á hendur Landsbankanum fyrir Hæstarétti. Mál sem hún dæmdi síðan í og atkvæði féllu 3-2. Hún var í meirihlutanum og dæmdi Landsbankanum í óhag. Mannréttindadómstóllinn taldi að það væri hægt að líta svo á að það væru tengsl á milli þessara atburða. Og það hversu stutt var á milli skuldauppgjörsins sem hún tók þátt í með því að lána veð, og síðan dómsins, þá væri raunverulega réttmæt ástæða til að draga óhlutdrægni hennar í efa.“

Þannig að þótt Mannréttindadómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í því máli, þá er ekki víst að hann kæmist að þeirri niðurstöðu ef þetta mál færi þangað?

„Algjörlega. Það yrði af allt öðrum ástæðum. Ég vil nefna einn dóm til viðbótar. Það var mál sem einstaklingur rak á hendur Íbúðalánasjóði. Hann taldi að hann ætti ekki að borga vexti og verðtryggingu af láni sínu. Dómari sem fékk málið til meðferðar skuldaði 18 milljónir, sem voru reyndar komnar upp í 26 milljónir, verðtryggt lán við Íbúðalánasjóð. Hann var í sömu stöðu og þessi aðili dómsmálsins. Hæstiréttur taldi að það væru fjölmargir Íslendingar í sömu stöðu. Stór hluti þjóðarinnar væri í sömu stöðu og þessi dómari og þetta væru fyrst og fremst almennir hagsmunir. Þannig lít ég á þessa hagsmuni dómara í Hæstarétti. Það töpuðu allir landsmenn á bankahruninu að meira eða minna leyti. Þannig að ég sé ekki að þessir dómarar séu í annarri aðstöðu en þorri landsmanna hvað varðar afstöðu til bankanna fyrir hrun og þess sem gerðist þar.“

Brýnir dómara

En hefði ekki verið hreinlegra fyrir Markús að lýsa sig vanhæfan í málum sem vörðuðu Glitni, til þess að hlutleysi dómsins væri hafið yfir allan vafa?

„Þetta er stór spurning. Dómstólum er falið það hlutverk að dæma í alls konar sakarefnum. Þeir geta ekki valið sér verkefni. Það er auðvitað freistandi að dómari hlaupi alltaf í felur þegar eitthvað bjátar á. En dómari getur það ekki. Hann verður að skoða hvert tilvik. „Er réttmæt ástæða til að draga óhlutdrægni mína í efa?“ Hann getur það ekki bara af því að það er óþægilegt eða vegna þess að það sé hætta á því að hann verði skíttur út síðar. Hann getur ekki hugað að því. Hann verður fyrst og fremst að huga að raunverulegri lögfræðilegri greiningu á því hvort þetta tilvik nægi til þess að hann verði vanhæfur.“

Nú hefur Markús dæmt í hrun-tengdum málum, sum tengjast Glitni, er sá möguleiki fyrir hendi að taka þurfi þau mál upp?

„Ég get alls ekki tjáð mig um það og mun ekki gera. En eins og ég segi, ég tel að það sem fram hefur komið í málinu ekki benda til þess að þessir dómarar hafi verið vanhæfir í málunum.“

Rýrir svona mál traust á íslenskum dómstólum?

„Það fer eftir því hvernig umfjöllunin er. Ef þetta er sanngjörn og heiðarleg umfjöllun, þá á þetta að verða til þess að upplýsa fólk. Þetta hins vegar brýnir fyrir dómurum að þeir eru ekki hafnir yfir lög. Þeir verða að fylgja sömu lögum og aðrir. Í þessu tilviki verða þeir auðvitað að tilkynna eignir sínar. Það má ekkert slaka á slíkum kröfum. Jafnvel ætti að efla þetta eftirlit. Ég sé fyrir mér að það væri bara sent bréf til dómara árlega og þeir beðnir um að uppfæra upplýsingar um bæði atvinnuþátttöku sína og hugsanlega eign í atvinnurekstri.“ 

Þannig að allt sé uppi á borðum?

„Ég myndi vilja sjá þetta þannig að þetta sé bara á netinu. Þó það sé ákveðið brot gegn friðhelgi dómaranna, þá eru þessi störf svo mikilvæg að þeirra hagsmunir verða að vera uppi á borðum,“ segir Sigurður Tómas.