Segir að Landsbankinn muni leita réttar síns

06.02.2016 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Landsbankinn hefur óskað eftir upplýsingum frá stjórnendum Borgunar um hvort þeir hafi búið yfir vitneskju um að kortafyrirtækið ætti rétt á greiðslum vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe, í söluferli á hlut bankans í kortafyrirtækinu. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að bankinn muni leita réttar síns reynist svo vera.

Sala Landsbankans á 31,2 prósenta hlut bankans í kortafyrirtækinu Borgun fyrir tæpa 2,2 milljarða króna í lok árs 2014, hefur verið harðlega gagnrýnd. Bæði hvað varðar söluferlið sjálft, sem var bakvið luktar dyr, og vegna þess að kortafyrirtækið á nú von á hátt í fimm milljarða króna valréttargreiðslu vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe, sem ekki var gert ráð fyrir í kaupsamningnum.

Ýmsum spurningum ósvarað

Nú hefur Landsbankinn sent stjórnendum Borgunar bréf, þar sem bankinn krefst þess að fá að vita hvort stjórnendurnir, sem voru á meðal þeirra sem keyptu hlut bankans, hafi vitað af því í söluferlinu að kortafyrirtækið ætti rétt á áðurnefndum valréttargreiðslum. Morgunblaðið greinir frá málinu í dag. Bankastjóri Landsbankans segir mikilvægt að fá umræddar upplýsingar upp á borðið.

„Við sáum ofan í áætlanir þeirra, þar var vöxtur og við reiknuðum náttúrulega hlutdeild í þeim vexti þegar við vorum að meta verðið, en það lágu engar upplýsingar fyrir og ekkert um þennan valrétt,“ segir Steinþór Pálsson í samtali við fréttastofu.

Kveðst trúa því að menn hafi starfað af heilindum

Þá vill Landsbankinn sömuleiðis fá nákvæmar upplýsingar frá Borgun um hvaða fjárhæð muni koma í hlut kortafyrirtækisins vegna valréttarsamningsins og hversu stóran hlut hennar megi rekja til rekstrarsögu Borgunar til þess tíma er hlutur bankans var seldur. Landsbankinn hefur gefið stjórnendum Borgunar frest til þriðjudags til að svara spurningunum, en bankastjórinn segist enn trúa því að menn hafi starfað af heilindum.

„Það er það sem maður trúir, en við viljum sannreyna það með þessari beiðni okkar til þeirra. En í öllum þessum samtölum okkar við Visa Europe, við Borgun, við Valitor og Arion banka líka, þá kom þetta aldrei upp að það væri hægt að ætla að þarna væru verðmæti á ferðinni.“

Hann segir að bankinn muni leita réttar síns komi í ljós að upplýsingum hafi verið haldið frá Landsbankanum í söluferlinu á hlut bankans í Borgun. „Þá er málið mjög alvarlegt, þá fer þetta bara í lögfræðilegan feril. Þá munum við gæta okkar hagsmuna með þeim aðferðum sem hægt er,“ segir Steinþór í samtali við fréttastofu.

Í tilkynningu frá Borgun, sem send var fréttastofu í morgun, kemur fram að kortafyrirtækið hafi móttekið fyrirspurnina frá Landsbankanum um hvaða upplýsingar lágu fyrir við sölu bankans á hlut hans í fyrirtækinu árið 2014. Í bréfinu séu lagðar fram nokkrar sjálfsagðar spurningar um ferlið og þeim verði svarað eins fljótt og auðið er.

 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi