Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir að flokkurinn þurfi að skoða stöðu sína

26.07.2017 - 14:42
Þingflokkur Viðreisnar 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þingmaður Viðreisnar segir að fylgistap flokksins kalli á að hann skoði stöðu sína. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun næði flokkurinn ekki manni inn á þing ef gengið yrði til kosninga nú.

Ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn virðist reynast Viðreisn og Bjartri framtíð erfitt. Samkvæmt nýrri könnun MMR næði hvorugur flokkur manni inn á þing ef gengið yrði til kosninga nú, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi og mælist sem fyrr stærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Á engar skýringar á fylgistapinu

Í könnun MMR mælist fylgi Bjartrar framtíðar 2,4 prósent og einungis 4,7 prósent þátttakenda sögðust styðja Viðreisn, en flokkurinn hlaut ríflega tíu prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum. Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, hefur áhyggjur af stöðu flokksins.

„Ég á svo sem engar aðrar skýringar á þessu en það að fólk er einfaldlega ekki nægilega ánægt með okkar störf og treystir einhverjum öðrum en okkur, að minnsta kosti hluti þeirra sem kusu okkur, til að fara með stjórn mála í landinu,“ segir Pawel í samtali við fréttastofu. „Ef við myndum vita nákvæmlega hvað það væri sem við erum að gera vitlaust, þá værum við einfaldlega löngu búin að bregðast við því, en við höfum svo sem ekkert annað í stöðunni en að halda áfram að reyna að vinna okkar verk og vonast til þess að fólk muni treysta okkur til að kjósa okkur aftur eftir að þessu kjörtímabili lýkur.“

Segir að flokkurinn þurfi að líta í eigin barm

Jón Steindór Valdimarsson, annar þingmaður Viðreisnar, segir stöðu flokksins fyrst og síðast vera vonbrigði og ljóst sé að sambúðin við Sjálfstæðisflokkinn sé að valda flokknum erfiðleikum. Mikill áherslumunur sé á flokkunum í stórum og veigamiklum málum, til að mynda gjaldmiðilsmálum, og kjósendum flokksins finnist hann ef til vill ekki hafa staðið sig og þurfi greinilega að herða sig. Hann segir að flokkurinn hafi gert málamyndanir þegar hann gekk til ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

„Kannski höfum við gengið of langt þar, ég veit það ekki,“ segir Jón Steindór í samtali við fréttastofu. „Við þurfum svona að horfa svolítið í eigin barm núna og velta fyrir okkur okkar stöðu og flokksins, það er alveg ljóst. Við erum í pólitík til þess að reyna að hafa áhrif og eiga erindi og við þurfum að velta því fyrir okkur ef að kjósendur einhvern veginn eru ekki á því að við séum á réttri leið. Þá þurfum við að velta því fyrir okkur.“ 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV