Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að bensínstöðvum muni fækka á Akureyri

12.05.2019 - 11:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það eru nærri helmingi fleiri bensínstöðvar á Akureyri en í Reykjavík miðað við íbúafjölda í þessum sveitarfélögum. Forseti bæjarstjórnar á Akureyri segir það stefnu bæjarins að jarðefnaeldsneyti víki fyrir nýjum orkugjöfum og þá fækki bensínstöðvum.

Eins og fram hefur komið ætlar Reykjavíkurborg að fækka bensínstöðvum í borginni um helming á næstu sex árum.

Áhersla á að fjölga stöðvum fyrir aðra orkugjafa

Það leiðir hugann að Akureyri þar sem umhverfismál eru fyrirferðamikil og mörg slík verkefni í gangi. „Okkar stefna er sú að fjölga hér fjölorkustöðvum og koma upp hleðslustöðvum til að skipta yfir í rafmagn og byggja upp þá innviði,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, foresti bæjarstjórnar á Akureyri.

Helmingi fleiri stöðvar á Akureyri miðað við íbúafjölda

Ef fjöldi bensínstöðva á Akureyri og Reykjavík er borinn saman, kemur í ljós að stöðvarnar á Akureyri eru nærri helmingi fleiri en í Reykjavík, miðað við fjölda íbúa. Það eru tæplega 3000 íbúar um hverja bensínstöð í Reykjavík en á Akureyri eru um 1500 manns um hverja stöð.

Telur að bensínstöðvum muni fækka

Og Halla segist sjá fyrir sér að 12 stöðvar í dag verði orðnar færri eftir nokkur ár. „Já ég get alveg ímyndað mér það. Ég hugsa, eins og ég segi, að þær breytist yfir í þessar fjölorkustöðvar og þjónusti þá allar tegundir af bílum. Já og fækki, ég myndi halda að það yrði framtíðin.“

Færri stöðvar í skipulagsáformum bæjarins

Markaðurinn muni þannig sjá til þess en ekki verði með beinum hætti ráðist í að fækka bensínstöðvum á Akureyri á sama hátt og fyrirhugað er í Reykjavík. „Við búum að vísu ekki við sama vandamál og Reykjavík þar sem bensínstöðvar eru inni í íbúðahverfi. En vissulega er verið að gera ráð fyrir fækkun í skipulagi eins og það lítur út í dag,“ segir Halla.