Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að árásin hafi verið gerð til að stöðva stríð

03.01.2020 - 21:26
President Donald Trump delivers remarks on Iran, at his Mar-a-Lago property, Friday, Jan. 3, 2020, in Palm Beach, Fla. (AP Photo/ Evan Vucci)
 Mynd: AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna segir að drónaárás Bandaríkjahers í Írak í nótt hafi verið gerð til að stöðva stríð, ekki til að hefja stríð. Á fréttamannafundi í kvöld sagði Trump að Bandaríkin vilji ekki knýja fram breytingar á stjórnarfari í Íran en stjórnvöld þar verði að hætta að beita skærum til þess að valda glundroða í nágrannaríkjum sínum.

Árásin hefur nú þegar aukið á spennuna á svæðinu. Þjóðaröryggisráð Írans hótaði Bandaríkjamönnum fyrr í kvöld grimmilegum hefndum fyrir hershöfðingjann Qasem Soleimani, sem féll í drónaárásinni  Bandaríkjahers í Írak í nótt. 

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda liðsauka til Miðausturlanda. Um 3.500 hermenn verða sendir þangað á næstunni. Þeir eru til viðbótar nokkur hundruð hermönnum sem bættust þarna við fyrr í vikunni eftir árás á bandaríska sendiráðið í Bagdad í Írak. Varað er við því að atburðurinn eigi eftir að stefna öryggi og stöðugleika í Miðausturlöndum í hættu og segir Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að heimurinn hafi ekki efni á öðru Persaflóastríði.  

Baldur Þórhallsson alþjóðastjórnmálafræðingur segir að það hefði verið erfitt fyrir Bandarikin að sitja mikið lengur aðgerðalaus hjá án þess að það yrði álitið veikleikamerki. Árásir hafi verið gerðar á skip á Persaflóa, olíuvinnslur í Sádi-Arabíu, árásir á verktaka Bandaríkjanna í Írak og nú síðast árásir á bandaríska sendiráðið í Bagdad. 

Bandaríkin hafi í stefnu sinni í Miðausturlöndum lagt áherslu á að reyna að sporna við útþenslustefnu Írana sem hafi styrkt stöðu sína á svæðinu allverulega á undanförnum árum í Líbanon, Sýrlandi, Jemen og víðar. Baldur telur að hvorki Bandaríkin né Íran vilji bein stríðsátök milli landanna. 
 
„Eins og [Íranar] segja þá er mjög líklegt að þeir muni bregðast við með árásum á bandarísk skotmörk og stuðningsmenn þeirra í Miðausturlöndum. Við vitum náttúrlega ekki hvað nákvæmlega þeir munu gera en ég tel nokkuð ljóst að hvorki Íran né Bandaríkjamenn vilja bein stríðsátök milli landanna. Menn munu ekki ganga það langt. Frekar eigum við von á vaxandi skærum milli landanna.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV