Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir 23 milljarða uppsafnaða í snjóflóðavarnir

Mynd með færslu
Frá vettvangi snjóflóða á Flateyri um miðjan janúar.  Mynd: Önundur Pálsson - Aðsend mynd
Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í Ofanflóðasjóði, segir að Alþingi skammti of naumt til uppbyggingu snjóflóðavarnagarða um byggðir landsins.

„Ætli það séu ekki uppsafnaðir einhverjir 23 milljarðar sem að væri hægt að nota. Það hefur alltaf verið einhver ástæða fyrir því að það er ekki hægt. Það segi ég að sé röng forgangsröðun af því við verðum að drífa þetta af eins fljótt og við getum,“ segir Halldór, sem var í tólf ár bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.

Upphaflega var stefnt að því ljúka uppbyggingu snjóflóðavarna fyrir 2010, það var framlengt samkvæmt reglugerð til 2020 en hann segir að því verði ekki lokið fyrr en 2050. „Ég fagna því að það er nú þegar búið að lýsa því yfir að það á að skoða garðana betur. Við þurfum að vera með allt eins öruggt og hægt er. Svo að það sé ekkert að fara yfir garðana eins og gerðist þarna í þessu tilviki,“ segir Halldór í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Stór verkefni bíða á Vestfjörðum, Austurfjörðum og Norðurlandi. „Ég hef verið hugsi yfir því hvernig varnirnar eru ákvarðaðar gagnvart lögum. Það er eingöngu verið að verja íbúðarhúsnæði, ekki iðnaðarsvæði og hafnarsvæði. Ég man eftir atvikum þegar ég var fyrir vestan þar sem við töldum að það þyrfti að passa upp á þetta smábátahafnasvæði því að vissulega lá það alveg fyrir að í aftakaflóði gæti það farið niður þar.“

Í maí í fyrra skoruðu bæjarstjórar og sérfræðingar í ofanflóðavörnum og náttúruhamförum á ríkisstjórn Íslands að hraða uppbyggingu ofanflóðavarna á landinu. „Mér heyrist þetta vera búið að ná eyrum fólks núna.“ Forgangsröðun verkefna er til hjá Umhverfisráðuneytinu. „Það eina sem vantar eru peningar til að fara hraðar í verkefni og byrja á nýjum verkefnum,“ segir Halldór.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í Ofanflóðasjóði.