Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Seðlabankinn rís hæst í trausti almennings til stofnana

25.02.2020 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Traust til heilbrigðiskerfisins minnkar um tólf prósentustig milli ára og traust til Seðlabankans eykst um fjórtán, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Traust til Alþingis eykst en færri treysta lögreglunni.

Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er sem áður Landshelgisgæslan. 89 prósent bera mikið traust til hennar, sem er svipað og síðustu ár. Minnst traust hefur borgarstjórn Reykjavíkur, 17 prósent, en það jókst um eitt prósentustig milli ára.  

Traust til Seðlabankans eykst mest milli ára en nú bera 45 prósent traust til hans samanborið við 31 prósent í fyrra. Næstmesta aukningin er hjá Alþingi, um fimm prósentustig og bera 23% traust til þess. Þrátt fyrir það er þingið í þriðja neðsta sæti allra stofnana. Næstneðst er bankakerfið, sem hrapaði í trausti eftir hrunið en hefur smám saman verið að sækja í sig veðrið síðan og fór í fyrsta sinn frá hruni upp úr neðsta sætinu í fyrra, þegar borgarstjórn fór á botn listans.

Heilbrigðiskerfið hefur tapað mestu trausti milli ára, tólf prósentustigum og mælist nú með 57 prósent. Lögreglan tapar tíu prósentustigum en er samt sem áður í þriðja efsta sæti með 73 prósent. Ríkissaksóknari og dómskerfið tapa níu og tíu prósentustigum milli ára og Háskóli Íslands fjórum. 

Hér að neðan má sjá yfirlit um traust til stofnana, og í sviga breytinguna miðað við síðasta ár.

 
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV