Seðlabankinn mun grípa til varna vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við erum að fara að grípa til aðgerða mjög fljótlega,“ segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, um aðgerðir til að sporna við efnahagslegum áhrifum COVID-19 veirunnar. Frekari vaxtalækkanir eru líklegar.

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði stýrivexti sína í vikunni til að bregðast við áhrifum veirunnar og breski seðlabankinn er tilbúinn að gera slíkt hið sama. Ráðherranefnd um fjármálastöðugleika kom saman til fundar í gær þar sem COVID-19 veiran og áhrif hennar voru rædd.

Vel undirbúin fyrir áföll

Ásgeir segir að seðlabankar þurfi að hafa þrennt í huga þegar óvænt áföll komi upp. Í fyrsta lagi að horfa á gjaldeyrisjöfnuð landsins og að tryggja að gjaldeyrismarkaðurinn standi áfallið af sér. Ásgeir segir íslenskt hagkerfi vel í stakk búið  í þeim efnum þar sem viðskiptaafgangur í fyrra hafi verið 172 milljarðar.

Fyrirtæki hafi aðgang að lausafé

Í öðru lagi þurfi að huga að lausafjárstöðu fjármálakerfisins. „Við munum reyna að tryggja að fjármálafyrirtækin í landinu geti staðið við bakið á sínum viðskiptavinum, að þau geti hlaupið undir bagga með þeim og látið þau fá lausafé jafnvel þó að það komi einhverjir mánuðir þar sem tekjurnar nægja ekki fyrir kostnaði. Við höfum þegar undirbúið aðgerðir hvað það varðar.“

Þriðja atriðið snýr að lengri tíma efnahagsaðgerðum og er þá fyrst og fremst horft til lækkunar vaxta. Hvenær það verður gert ræðst af framvindunni.

Þungur ársfjórðungur hjá ferðaþjónustu

Ásgeir segir ljóst að efnahagslegra áhrifa af völdum COVID-19 sé þegar farið að gæta. Viðbúið sé að verulegur samdráttur verði á öðrum fjórðungi ársins en vonir standi til að það versta verði yfirstaðið á þriðja ársfjórðungi. „Það er ekki gott fyrir ferðaþjónustuna að missa þriðja ársfjórðung. Við getum staðið af okkur svona áfall án þess að það valdi einhverjum óstöðugleika en því lengur sem þetta varir því meiri verða efnahagslegu áhrifin. Auðvitað þolum við þetta vel.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi