Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sautján hafa samþykkt skilmálabreytingu FEB

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV
Sautján kaupendur af þeim tuttugu og þremur sem Félag eldri borgara hefur fundað með hafa samþykkt að greiða félaginu aukagreiðslu vegna hærri byggingarkostnaðar. Kostnaðurinn verður um 400 milljónum krónum hærri en gert var ráð fyrir við gerð kaupsamninga. Í tilkynningu frá félaginu segir að fjórir vilji skoða málið nánar áður en þeir samþykkja skilmálabreytingu. Þá hafa félaginu borist bréf frá lögmönnum tveggja kaupenda þar sem fram kemur að þeir í íhugi að leita til dómstóla.

Þetta kemur fram í bréfi sem félagið sendi kaupendum í kvöld að loknum stjórnarfundi.

Harma að kostnaður hafi reynst hærri

Í bréfinu segir að stjórn félagsins harmi að kostnaður íbúða við Árskóga hafi reynst hærri en áætlað kaupverð og þau vandkvæði sem það hafi valdið verðandi íbúum.

Þá segir að kaupendur hafi almennt sýnt skilning „þó óneitanlega sé slæmt fyrir fólk að fá óvæntan bankareikning sem þennan.“

Bygging íbúðanna ekki hagnaðardrifin 

Með framkvæmdunum og byggingu íbúðanna hafi félagið viljað bregðast við og aðstoða eldri borgara við að eignast íbúðir á hagstæðu verði og í raun megi líta þannig á að félagsmenn hafi falið félaginu að reisa íbúðirnar. Rúmlega 400 félagsmenn hafi lýst áhuga á íbúðunum þegar framkvæmdir hófust. Þannig hafi félagið geta fengið lánsloforð frá bankanum sem þurfti til framkvæmdarinnar.

Í raun megi horfa á verkefnið sem eins konar byggingafélag þeirra sem hyggjast kaupa íbúðirnar. Því sé eðlilegt að kostnaðaraukanum sé dreift jafnt, rétt eins og ávinningnum sem fæst með slíku fyrirkomulagi. 

Félag eldri borgara hafi tekið að sér hlutverk milliliðar án þóknunar í samræmi við markmið og tilgang félagsins Framkvæmdin hafi ekki verið hagnaðardrifin og ætluð félagsmönnum til hagsbóta. 

Áfram miðast kaupverð við kostnaðarverð

Í tilkynningunni kemur fram að áfram miðist kaupverð við kostnaðarverð íbúðanna. Þær séu metnar um tíu til fjórtán prósentum undir markaðsverði sambærilegra íbúða.

Heildarkostnaður við að reisa fjölbýlishúsin tvö við Árskóga sé um fjórir milljarðar króna. Hann verði um 400 milljónum krónum hærri en gert var ráð fyrir þegar kaupsamningar voru gerðir. Það sé ákvörðun hvers og eins hvort hann sættir sig við þessar breyttu forsendur, segir í bréfinu. 

Tilgangi félagsins stefnt í hættu lendi það í málaferlum

Fram kom í kvöldfréttum sjónvarps að kaupendur íbúðar í blokkinni hygðust leita atbeina dómstóla til þess að fá íbúð sína afhenta. Þeir reyndu án árangurs að fá lykla að íbúðinni í dag. 

Félag eldri borgara byggir afkomu sína nánast alfarið á félagsgjöldum, að því er kemur fram í bréfinu. Tilgangur þess sé að berjast fyrir hagsmunum eldri borgara, stuðla að virkni þeirra og velferð. Þessu verði stefnt í voða lendi félagið í erfiðum og löngum málaferlum við félagsmenn sína. 

Þá kemur fram að stjórnin vinni nú hörðum höndum að því að leysa úr málinu og að félagsmenn verði upplýstir jafnóðum. Þá verði boðað til félagsfundar síðar í þessum mánuði þar sem rætt verði um málið.

Ekki náðist í forsvarsmenn Félags eldri borgara við gerð fréttarinnar.