Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sauðfé bjargað úr fönn í Grímsnesi

11.12.2019 - 15:59
24 kindum bjargað úr fönn í Grímsnesi.
 Mynd: Jóhannes Þórólfur Guðmundss
24 ám sem hafði fennt í kaf var bjargað við Þóroddsstaði í Grímsnesi í dag. Jóhannes Þórólfur Guðmundsson, formaður í Hjálparsveitinni Tintron, segir að fimm björgunarsveitarmenn frá Tintron hafi sinnt beiðni bænda á Þóroddsstöðum um aðstoð. Þegar þá bar að höfðu bændurnir náð flestum ánum úr skaflinum en enn voru nokkrar ófundnar. Allar ærnar nema ein lifðu hremmingarnar af.

„Síðustu kindurnar fundust þarna með því að snúa skóflunni öfugt og nota sem snjóflóðastöng. Þegar að fjöldi kindanna var orðinn sá sem að bændurnir lögðu upp með að finna, þá aðstoðuðum við þá við að smala þeim inn í hús í hlýju þar sem þeim hefur sjálfsagt verið gefið vel að borða og drekka,“ segir Jóhannes. 

24 kindum bjargað úr fönn í Grímsnesi.

Bændurnir höfðu leitað ánna frá birtingu og höfðu grun um að þær væru staðsettar skammt frá bænum þegar þau kölluðu eftir aðstoð hjálparsveitarinnar. Björgunarstarf, frá því að kallið barst, tók um klukkustund. 

Að sögn Jóhannesar hefur Tintron ekki sinnt fleiri útköllum tengdum skepnum en bárujárnsplötur af þökum fjárhúsa hafa fokið. 

24 kindum bjargað úr fönn í Grímsnesi.
24 kindum bjargað úr fönn í Grímsnesi.
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV