Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sauðárkrókur loksins kominn með rafmagn

Brotnir rafmagnsstaurar eftir óveðrið
 Mynd: Landsnet
Rafmagn er komið á Sauðárkróki en bærinn hafði verið rafmagnslaus síðan um tvö leytið á þriðjudag. Stefán Vagn Stefánsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að rafmagnið hafi komið um níu leytið.

Hann segir að vonast sé til að hægt verði að opna bæinn og koma á umferð til Akureyrar og Reykjavíkur um miðjan dag í dag.

Nú sé verið að þrýsta á Rarik um að ráðist í viðgerðir á Skaga og Reykjaströnd enda sé þar enginn hitaveita og því orðið býsna kalt á bæjum þar. Menn hafi áhyggjur af veðurspánni enda gert ráð fyrir hörkufrosti þar um helgina.   Menni hafi minni áhyggjur af rafmagnsleysinu í Fljótunum enda hitaveita þar.

Rafmagn er mjög flöktandi í Húnaþingi vestra. Rafmagn komst á í Viðdal í gærkvöld, Miðfirði um fimm leytið í nótt og Hvammstanga í morgun. Magnús Magnússon, sveitastjórnarfulltrúi og prestur, á Staðarbakka, segir mikla vinnu framundan við tengivirki í Hrútartungu því mikil selta hafi hlaðist á það. Hann segir að kúabændur hafi verið í miklum vandræðum og rafmagnsleysið gæti verið mikill skaði fyrir þá, bæði til lengri og skemmri tíma. Þá gangi á með éljum og þegar kominn sé svona mikill snjór að þá sé bara hríðargarg þegar blási.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV