Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sauðárkrókur kominn með rafmagn

16.12.2019 - 05:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Rafmagn er komið á að nýju á Sauðárkróki og í Skagafirði sem og Hvammstanga. Enn er rafmagnslaust í Blöndudal og Svartárdal og víðar.

Uppfært klukkan 07:54

Spennistöðin í Hrútatungu í Hrútafirði leysti aftur út um klukkustund eftir að hún var hreinsuð og spennusett á ný.

Rafmagn fór því af öllum notendum sem henni tengjast, í Hrútafirði, Miðfirði, Laugarbakka, á Vatnsnesi, Bitrufirði, hluta Reykhólasveitar, Dalabyggð og víðar um klukkan hálf sex í morgun. Þá fór rafmagn líka af Sauðárkróki í framhaldinu. Starfsmönnum Rarik tókst að koma straumi aftur á Sauðárkrók og Skagafjörð um klukkan sjö

Rafmagn var tekið af Hrútatungustöðinni á miðnætti til að hreinsa seltu af spennivirkinu, og klukkan hálffimm var hreinsun lokið og búið að spennusetja það á ný. Var Hvammstangi þá aftur tengdur við Hrútatungu, eftir að hafa fengið rafmagn frá Laxárvatni síðustu sólarhringa. Þar varð því aftur rafmagnslaust þegar Hrútatunga féll aftur út, en það stóð þó ekki lengi því greiðlega gekk að tengja bæinn aftur við línuna frá Laxárvatni.

Hluti Búðardals fær rafmagn frá varaaflstöð en rafmagnslaust er annars staðar í Dalabyggð. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er nú unnið að því að koma rafmagni á byggðina í gegnum varatengingu frá Stykkishólmi um Skógarströnd. Maður var farinn af stað í verkið á sjöunda tímanum og búið að ræsa út fleiri.

Þá gekk ekki að finna bilunina sem veldur því að rafmagnslaust hefur verið í hálfum Svartárdal og Blöndudalnum öllum, nema einum bæ, síðan á tíunda tímanum í gærkvöld, þegar rafmagn fór af Langadal, Svartárdal og Blöndudal. Leitar- og viðgerðaflokkur Rarik var þegar sendur á vettvang og tókst honum fljótlega að koma rafmagni á Langadalinn.

Nokkru síðar náðist að hleypa straumi á línur í nokkurn veginn helmingi Svartárdals, en lengra komust menn ekki. Bilanaleit verður tekin upp aftur þegar birtir. Að sögn Steingríms Jónssonar rekstrarstjóra Rarik á Norðurlandi er selta víða vandamál, frost var og síðan leysingar og vatnið lekið víða.