Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sáttur við að taka ofan hattinn á næsta ári

17.08.2019 - 20:11
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Hinsegin dagar hér á landi náðu hámarki í dag með Gleðigöngunni. Páll Óskar stefnir að því að taka þátt í göngunni á næsta ári í síðasta skiptið. „Ég þarf að viðurkenna það að ég þarf hjálp og ef sú hjálp berst ekki, þá þarf ég aðeins að fara að draga saman seglin,“ segir Páll.

Páll Óskar hefur undanfarin nítján ár verið lokahnykkur gleðigöngunnar á Hinsegin dögum. „Ég er alveg sáttur við þá hugmynd að gera þetta fallega á næsta ári og síðan taka ofan hattinn, hafandi þá gert þetta í tuttugu ár,“ segir Palli.

Glimmergalli ekki skylda

Páll Óskar segir jafnframt að hann komi út í mínus eftir hvert ár. „Þetta er dýrt. Þetta er grasrótarganga. Við leyfum ekki auglýsingar í gönguna sjálfa og það er það sem gerir hana svo fallega. En ég kem alltaf út í mínus og það gengur ekkert endalaust. Þannig ég þarf að viðurkenna það að ég þarf hjálp. Og ef sú hjálp berst ekki. Þá verð ég aðeins að fara að draga saman seglin,“ segir hann.

Páll Óskar segir að þetta sé samt þess virði vegna þess að gangan og Hinsegin dagar hjálpi fólki. „Til hamingju með daginn allir. Íslendingarnir sem eru þarna úti sem eru ennþá inni í skápnum að burðast með kynhneigðina á bakinu. Þetta er líka dagurinn ykkar.  Við erum vonandi að gefa ykkur innblástur til að koma út. Þetta er gott - ég lifi mjög góðu lífi. Þið þurfið ekki að vera í pallíettu-galla, en lifa í sátt og samlindi með ykkur sjálfum.“

Allt að 100 þúsund manns í göngunni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að það sé erfitt að áætla fjölda áhorfenda en reiknað er með að um 80-100 þúsund hafi tekið þátt í göngunni í ár. Gengið var í fyrsta skipti frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg, suður Lækjargötu, Fríkirkjuveg að Hljómskálagarðinum. „Þetta er gríðarlega mikill fjöldi í ár. Það hafa aldrei verið fleiri atriði skráð til þátttöku í gleðigöngunni og gönguleiðin hefur aldrei verið lengri. Þannig við erum að slá hvert metið á fætur öðru hérna í dag, “ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga. 

Félagið Trans Ísland hafði áhyggjur af bleikþvætti, að fyrirtæki væru að nota Hinsegin daga í auglýsingaskyni, en styðji ekki baráttu hinsegin fólks í verki. „Við erum ekki komin á sama stað og á mörgum stöðu erlendis. Þess vegna vildum við nýta tækifærið hjá Trans Ísland og eiga samtalið áður en við erum komin of langt,“ segir Ugla Stefanía Kristínar- og Jónsdóttir, formaður Trans Ísland.

Baráttan heldur áfram

Síðustu dagar hafa verið gríðarlega fjölbreyttir, litríkir og skemmtilegir. Og undirbúningurinn fyrir þennan dag gengið vel. Þannig í dag erum við bara að uppskera og auðvitað halda áfram að berjast,“ segir Gunnlaugur Bragi jafnframt.

Hvað er skemmtilegast við Hinsegin daga? „Það er svo mikil tónlist og stórar sprengjur,“ segir Bergrós Lilja Jónasdóttir.

„Mér finnst svo skemmtilegt hvað það er hávært og litríkt. Uppáhalds liturinn minn er fjólublár. Mér finnst það svo skemmtilegt að það sé akkúrat fjólublár í fánanum,“ segir Katrín Anna Erludóttir Dellsén.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV