Sáttaviðræður strand og málsókn undirbúin

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Guðjón Skarphéðinsson, einn þeirra sem Hæstiréttur sýknaði nýverið í Guðmundar-og Geirfinns málinu, náði ekki samkomulagi við sáttanefnd stjórnvalda varðandi bætur. Lögmaður hans segir að málsókn verði nú undirbúin þar sem ríkið virðist ekki vilja ná sáttum.

Fréttablaðið greindi frá því á forsíðu sinni í morgun að Guðjón hafi hafnað tilboði ríkisins um bætur. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, segir að ekki hafa náðst samkomulag um hæfilegar bætur. Ekkert formlegt tilboð hafi komið fram, en sáttanefnd ríkisins hafi verið að ræða tölur á bilinu 120 til 150 milljónir króna. 

Ragnar sagði í Silfrinu fyrr í mánuðinum að hann ætli að krefjast miskabóta upp á rúman milljarð fyrir Guðjón. Hann býst nú við því að ríkið sé ekki reiðubúið að ræða málin frekar. 

„Þessar kröfur byggjast einfaldlega á því að framreikna helsta fordæmið sem fram hefur komið í þessu máli, dómur Hæstaréttar 1983 í málum þeirra svonefndu Klúbbsmanna,” segir Ragnar. Varðandi næstu skref í máli Guðjóns segir Ragnar að nú hefjist undirbúningur að málsókn. „Ég tel ekki að ríkið vilji ræða sættir áfram. Ég veit ekki hvort það hafi áhuga á sáttum.”

Varðandi hina málsaðila sem sýknaðir voru í Hæstarétti síðasta haust, Tryggva Rúnar Leifsson, Sævar Ciesielski, Albert Klan Skaftason og Kristján Viðar Júlíusson, segist Ragnar ekki hafa heyrt af því hvort niðurstaða hafi verið komin í þeirra mál.