Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sátt verði að ríkja um stjórnarskrárbreytingar

13.01.2019 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Endurskoðun stjórnarskrár er forgangsmál hjá forsætisráðherra sem vonar að hægt verði að ljúka henni á tveimur kjörtímabilum. Fjármálaráðherra telur ekki þörf á heildarendurskoðun, þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn kveði á um slíkt.

Formenn flokka sem eiga sæti á Alþingi hafa fundað átta sinnum um breytingar á stjórnarskránni frá því í haust. Stefnt er að því að klára heildarendurskoðun á stjórnarskránni á næstu tveimur kjörtímabilum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vona að breytingarnar geti farið fram í þónokkurri sátt. „Ef ég horfi á það sem við erum búin að ræða þá erum við töluvert mikið um auðlinda og umhverfismál og ég myndi segja að það er mín sýn að við ættum að reyna að ná samstöðu. eða allavega tiltölulega breiðri samstöðu um slík ákvæði svo dæmi séu tekin. Önnur ákvæði eru umdeildari. það sem við erum að fást við núna til dæmis og kannski liggur ekkert fyrir hversu umdeilt er er að við erum að fara yfir kaflann um forsetavaldið og framkvæmdavaldið. Auðvitað vitum við að það er mismunandi sýn á ákveðna þætti það er en við erum kannski komin á þennan stað að geta sagt til um það hvaða atriði það eru sem standa út úr.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekki gott að segja hvenær af breytingum verði; þær þurfi að gera í samstöðu. „Það er auðvitað opinbert að stjórnmálaflokkarnir hafa haft ólíka skoðun og ég sé auðvitað töluverðan áherslumun á því sem fram kemur hjá einstaka stjórnarandstöðuflokkum og því sem minn flokkur hefur talað fyrir.“

Á fundi formanna flokkanna, sem eiga sæti á Alþingi, um stjórnarskrármál í október lét Bjarni bóka að hann teldi ekki þörf á heildarendurskoðun, þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn kveði á um slíkt. Hann teldi frekar ráð að vinna áfram með helstu ákvæðin, auðlinda, umhverfis, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. Hann bæri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum en formennirnir væru farnir að ræða atriði sem væru fyrir utan það sem hann teldi að þyrfti að ræða. 

„Þetta er forgangsmál hjá mér og ég hef meira gaman af erfiðum verkefnum heldur en auðveldum. Ég held hins vegar að stjórnmálin bara skuldi samfélaginu það að ná árangri í þessu máli.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV