Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sátt um að Reykjanesbraut liggi áfram við álver

28.01.2020 - 12:18
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ákveðið hefur verið, eftir viðræður fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og álvers Rio Tinto í Straumsvík, að tvöföld Reykjanesbraut frá gatnamótum að Krýsuvík að Hvassahrauni verði í núverandi vegstæði, í stað þess að færa hana eins og gert er ráð fyrir í aðalskipulagi bæjarins.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, greinir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni. Meirihluti Reykjanesbrautar er með tvöföldum akreinum í báðar áttir, ef frá er talinn fyrrnefndur kafli sem og Reykjanesbraut frá Fitjum í Njarðvík að flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Alvarleg bílslys hafa orðið á þessum köflum, nú síðast banaslys 12. janúar þegar tveir bílar rákust saman. 

Samkvæmt aðalskipulagi átti að færa Reykjanesbrautina fjær álverinu og voru þær áætlanir arfleifð frá þeim tíma þegar til stóð að stækka álverið. Íbúar höfnuðu þeirri stækkun í kosningu árið 2007. Vinna við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar fer að hefjast.

Mynd með færslu
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Mynd: Þór Ægisson

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir í færslunni að samgönguráðherra hafi lýst yfir vilja til að ljúka tvöföldun brautarinnar mun fyrr en ráðgert var náist samkomulag um þessa leið, sem bæði sé mun ódýrari og fljótlegri en ef Reykjanesbrautin yrði færð.

„Á fundi skipulags- og byggingarráðs í morgun var ákveðið að hefja vinnu við breytingar á aðalskipulagi vegna þessa. Mjög stórt skref í að ljúka tvöföldun!,“ segir Rósa í færslunni.