Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sátt manneskja kaupir sér ekki neitt

Mynd: Hæpið / RÚV

Sátt manneskja kaupir sér ekki neitt

08.11.2017 - 13:30

Höfundar

Það er vísvitandi verið að gera okkur ósátt við það hvernig við lítum út því það er gagnlegt fyrir markaðinn að halda neytendum ósáttum, segir Ragna Benedikta Garðarsdóttir sálfræðingur. Hugmyndin um það hvernig við eigum að vera sé í raun og veru aldrei innan seilingar.

„Það er búið að skilgreina fyrir þig hvað er rétt sjálf. Maður kemst ekkert nálægt þessu og á í raun ekkert að komast nálægt þessu. Vegna þess að það er gagnlegt fyrir markaðinn að halda manni svolítið ósáttum, vegna þess að sátt manneskja kaupir sér ekki neitt,“ segir Ragna. „Það er vísvitandi verið að gera okkur svolítið óánægð með hvernig við lítum út.“

Ragna segir að hamingjusamt og fallegt fólk, sem vinsælt er til dæmis á samfélagsmiðlum eða í poppmenningu, sé af ásettu ráði spyrt saman við ýmis konar varning. Þannig fari almenningur að tengja sína eigin sjálfsvirðingu við fjöldaframleiddar vörur. „Þetta er bara merki um það hvað markaðssetningin er sjúklega áhrifarík,“ segir Ragna.

„Þegar fólk sér svona auglýsingar þá líður því verr með til dæmis eigið útlit. Þetta er allt saman vísvitandi gert til þess að draga það sem við köllum óskasjálf í burtu frá raunsjálfi. Raunsjálf er hvernig við metum að við séum í raun og veru, en óskasjálfið er alltaf verið að ýkja, draga lengra og lengra í burtu og svo eigum við að geta fyllt í þetta gat með einhverjum hlutum. Það eru kenningar og rannsóknir sem styðja það að fólk sem er með raunsjálfið mjög langt frá óskasjálfinu er líklegra til að vera þunglyndara, kvíðnara og glíma við ýmiskonar geðræn vandamál,“ segir Ragna.

Hér fyrir ofan má sjá brot úr Hæpinu, sem er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 20.05. Í þættinum er hugtakið „personal branding“ skoðað. Er það orðið að venju í dag að manneskjan sé eigið vörumerki á samfélagsmiðlum? Getur það haft einhverjar afleiðingar fyrir sjálfið að vera á samfélagsmiðlum? Rætt er um opinbera smánun á samfélagsmiðlum, orsök og afleiðingar.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Hefur mikil áhrif á andlegu hliðina“