Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sanna Marin verður yngsti forsætisráðherra Finna

08.12.2019 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd: Petri Aaltonen - Yle
Sanna Marin, varaformaður finnskra jafnaðarmanna og samgönguráðherra, verður næsti forsætisráðherra Finnlands. Þetta varð ljóst þegar hún bar sigur af, Antti Lindtman, samflokksmanni sínum, í atkvæðagreiðslu meðal helstu áhrifamanna í Jafnaðarmannaflokknum. Marin hlaut 32 atkvæði en LIndtman 29.

Fimm flokkar standa að finnsku ríkisstjórninni. Einn þeirra, Miðflokkurinn, lýsti því yfir fyrir skemmstu að hann styddi ekki lengur Antti Rinne á stóli forsætisráðherra. Rinne baðst því lausnar á þriðjudag.

Þar sem Jafnaðarmenn hafa forsætisráðherraembættið í ríkisstjórninni var það í raun í þeirra höndum hver tæki við. Það réðist í atkvæðagreiðslunni í kvöld. Fastlega er búist við því að þingið staðfesti Marin sem næsta forsætisráðherra á þriðjudag.

Sanna Marin er 34 ára og verður yngsti forsætisráðherra í sögu Finnlands.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV