Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sandra Kim syngur í Söngvakeppninni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sandra Kim syngur í Söngvakeppninni

16.01.2016 - 18:14

Höfundar

Belgíska söngkonan Sandra Kim kemur fram á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar í Laugardalshöll í febrúar. Sandra sigraði í Eurovision árið 1986, þegar Ísland tók fyrst þátt.

Lögin tólf sem keppa um að verða framlag Íslands í Eurovision í Stokkhólmi í maí voru frumflutt á Rás 2 í gær. Hægt er að heyra öll lögin hér á rúv.is. Fyrri undankeppnin fer fram í Háskólabíói laugardaginn 6. febrúar og sú seinni viku síðar. Úrslitakeppnin verður svo í Laugardalshöll 20. febrúar. Umgjörð undankeppninnar verður óvenju glæsileg að þessu sinni, í tilefni af því að 30 ár eru frá því Ísland tók þátt í keppninni í fyrsta sinn. Þannig hefur verið samið við belgísku söngkonuna Söndru Kim um að taka lagið á úrslitakvöldinu í Laugardalshöll. Sandra sigraði einmitt í keppninni árið 1986 með laginu J'aime la vie.

„Mér finnst það bara virkilega skemmtilegt. Í raun og veru hefði enginn annar komið til greina nema kannski Bobbysocks í þriðja skiptið. En mér finnst þetta frábært. Ég hlakka til að sjá hana,“ segir Reynir Þór Eggertsson, Eurovision-sérfræðingur.

„Hún er yngsti sigurvegari keppninnar, hún var ekki orðin 14 ára, hún er mánuði eldri en ég, fædd í október 1972. Og var bara 13 og hálfs árs þegar hún vann keppnina,“ segir Reynir. Reglum hefur síðan verið breytt þannig að keppendur verða að vera orðnir sextán ára gamlir.

Reynir segir að Sandra sé enn í fullu fjöri.

„Hún hefur unnið sem söngkona síðan. Hún hefur kannski aldrei náð sömu hæðum og að sigra í þessari keppni. En hún er búin að vera að gefa út plötur í 30 ár og það eru ekkert allir sem byrja að syngja á unglingsaldri sem geta státað af því að hafa 30-40 ára söngferil.“

 

Tengdar fréttir

Söngvakeppnin 2016 — Hlustaðu á lögin

Tónlist

Ísland í Eurovision 1999-2005

Tónlist

Ísland í Eurovision 1989-1992

Tónlist

Ægileg þjóðarógæfa að vinna sigur í Eurovision