Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sanders og Warren tókust ekki í hendur

Sen. Bernie Sanders, I-Vt., and Sen. Elizabeth Warren, D-Mass., participate in the first of two Democratic presidential primary debates hosted by CNN Tuesday, July 30, 2019, in the Fox Theatre in Detroit. (AP Photo/Paul Sancya)
 Mynd: Associated Press - AP
Hernaðarumsvif í Miðausturlöndum og kyn frambjóðenda var meðal þess sem tekist var á um í kappræðum á CNN í gærkvöld. Frambjóðendur Demókrata mættust í sjónvarpssal, þremur vikum áður en flokksmenn geta byrjað að greiða atkvæði um næsta forsetaframbjóðanda flokksins.

Sex þeirra tólf, sem enn eru í framboði til að verða forsetaframbjóðandi Demókrata í forsetakosningum þar vestra, mættust í sjónvarpssal í gærkvöld, í nótt að íslenskum tíma. Þetta eru þau sex sem þykja eiga hvað mesta möguleika á útnefningunni. 

Joe Biden mælist enn með mest fylgi frambjóðendanna samkvæmt skoðanakönnunum. Á eftir honum, og frekar jöfn, eru Elizabeth Warren og Bernie Sanders. Talsvert var horft til samsktipta þeirra á milli í kappræðunum í nótt, og eftir því tekið að þau tókust ekki í hendur.

Meðal þrætuepla þeirra er fullyrðing Warrens um að Sanders hafi sagt við hana í fyrra að kona gæti aldrei unnið forsetaslaginn. Því hefur Sanders staðfastlega neitað, síðast í nótt. 

Meðal þess sem rætt var í kappræðunum var hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum. Þar voru þau Sanders og Warren sammála, draga ætti allt bandarískt herlið frá heimshlutanum. Aðrir frambjóðendur töluðu fyrir því að þar yrði frekar dregið yrði úr hernaðarumsvifum. 

Forval Demókrata hefst formlega 3. febrúar þegar kjósendur í Iowa greiða atkvæði um hvern þau vilja sjá sem frambjóðanda flokksins í forsetakosningum.

Á meðan frambjóðendurnir tókust á sjónvarpssal ávarpaði Donald Trump stuðningsfólk sitt í Wisconsin. Þar vandaði hann ekki mögulegum mótframbjóðendum sínum kveðjurnar. Sagði að Bernie og vinstrisinnaða vini hans skorti getu og vilja til að verja Bandaríkin. 
 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV