Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samtökin '78 skuldi tveimur kynslóðum afsökun

Mynd: Svona fólk / Svona fólk

Samtökin '78 skuldi tveimur kynslóðum afsökun

29.10.2019 - 09:37

Höfundar

Miklar deilur blossuðu upp í Samtökunum '78 þegar samtök BDSM fólks sóttust eftir aðild að félaginu. Eftir aðalfund 2016 þar sem aðildin var samþykkt sögðu margir félagsmenn sig úr samtökunum, en fundurinn var síðar dæmdur ólögmætur og endurtekinn.

Þar var aðildin aftur samþykkt og mikið af eldri kynslóð samkynhneigðra sagði vegna þess skilið við Samtökin '78, þar á meðal stofnandi þeirra Hörður Torfason og sumir fyrrverandi formenn eins og Þorvaldur Kristinsson. „Allri þeirri röksemdafærslu sem var borin fram gegn aðild BDSM Íslands var svarað með grimmd, skætingi og jafnvel níði þegar verst lét,“ segir Þorvaldur í fimmta og síðasta þætti af Svona fólki sem var sýndur á RÚV í gær. „Mér þótti sárt að vera kallaður afturganga, fordómafullt dekurbarn. Enn sárast brann á okkur að vera kölluð forréttindahommar- og lesbíur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Svona fólk
Á endanum var aðild BDSM Íslands samþykkt.

Þorvaldur segir umræðuna hafa verið grimmasta á samfélagsmiðlum og félagsfundum samtakanna, en miklu hófstilltari í dagblöðum og sjónvarpi. Í Kastljósi 21. apríl 2016 sagði Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastjóri samtakanna að hugtakið hinsegin nái yfir víðara svið en áður. BDSM Ísland hafi fært rök fyrir inngöngu sinni í samtökin og samkvæmt lögum félagsins hafi stjórninni verið skylt að bera hana undir atkvæði félagsmanna. Hrafnhildur Gunnarsdóttir fyrrum formaður Samtakanna '78 – sem er jafnfram leikstjóri og höfundur Svona fólks – var henni til andsvara í þættinum og sagðist andsnúin inngöngunni vegna hins mikla ósættis sem ríkti um hana innan samtakanna. „Kynslóðirnar eru ekki alveg sammála um aðferðirnar lengur, og það er því miður, því til að geta haldið félagi eins og Samtökunum '78 í 40 ár þarftu að hafa kynslóðirnar sameinaðar í einhverri mynd.“

Í blálok lokaþáttar Svona fólks þegar kredit-listinn birtist heyrist svo Þorvaldur segja: „Mér er ljúft að játa það að ég ber mikla virðingu fyrir því nýja fólki sem kom til starfa í forystu samtakanna '78 eftir átökin 2016. En ég tel nú samt að Samtökin '78 skuldi tveimur kynslóðum homma og lesbía afsökun fyrir það sem gerðist 2016. Hvort sú tjáning iðrunar kemur veit ég ekki, tíminn verður bara að leiða það í ljós.“

Rætt var um klofninginn í Samtökunum '78 við inngöngu BDSM Íslands árið 2016 í Svona fólki. Hægt er að horfa á þáttinn í heild auk eldri þátta í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Ég ætla ekki að enda svona“

Sjónvarp

„Ég samhryggist þeim sem kynna sér ekki mál“

Sjónvarp

„Kynvillingar eru sjúkt fólk“

Sjónvarp

Persónuleg heimildarmynd um réttindabaráttu