Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Samtök atvinnulífsins: Vantar plan B

22.02.2014 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir þá ákvörðun stjórnvalda að ætla að draga til baka aðildarumsókn Íslands gagnvart Evrópusambandinu; með því sé búið að loka einum möguleika sem liggi fyrir í peningamálum og aðrar áætlanir liggi ekki fyrir.

Sú fyrirætlun stjórnvalda að draga til baka umsókn um aðild að ESB er misráðin, segir Björgólfur Jóhannson, formaður Samtaka Atvinnulífsins. Hann bendir á að aðilar vinnumarkaðsins séu nú að láta vinna úttekt á stöðu þessa máls, og stjórnvöld ættu að bíða eftir að henni ljúki áður en ákvörðun verður tekin. „Mér finnst í raun ekki búið að svara þeim spurningum sem þarf að svara. Það er búið að loka einum möguleika sem liggur fyrir í peningamálum, og ég hef ekki séð þetta plan B hjá þeim aðilum, hjá ríkisstjórninni, þannig að ég er auðvitað mjög undrandi á þessum mikla hraða,“ segir Björgólfur.

Skiptar skoðanir eru um það innan Samtaka Atvinnulífsins hvort aðild að ESB sé besti kosturinn, en forysta samtakanna hefur hins vegar lýst því yfir að viðræðum ætti að ljúka. „Mér finnst - hver svo sem viljinn er til að ganga í ESB, þá finnst mér að menn séu að fara ansi bratt í það að loka á þennan möguleika,“ segir Björgólfur.