Samtök atvinnulífsins slegin vegna frétta af Samherja

15.11.2019 - 22:55
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Samtök atvinnulífsins eru slegin yfir fréttum sem snúa að viðskiptum Samherja í Namibíu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef samtakanna sem Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri, skrifa undir.

„Alvarleg mál hafa komið upp á yfirborðið og einboðið að þau verði rannsökuð gaumgæfilega af þar til bærum yfirvöldum,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni. Þá telja samtökin jákvætt að stjórn Samherja hafi hafist handa með afdráttarlausum aðgerðum að endurvinna traust. 

„Viðbrögð þurfa að vera í samræmi við alvarleika hinna meintu brota og fyrirtækið þarf að leggja spil sín á borðið gagnvart þeim eftirlitsaðilum sem í hlut eiga.“ 

Það séu heildarhagsmunir allra að málið upplýsist fljótt og að orðspor þjóðarinnar og atvinnulífs á Íslandi, innanlands sem utan, skaðist sem minnst. Eigi alvarlegar ásakanir við rök að styðjast þurfi að senda skýr skilaboð um að háttsemi af þessu tagi verði ekki liðin, hvorki í atvinnulífinu hér á landi né annars staðar þar sem íslensk fyrirtæki hafa starfsemi. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi