Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Samþykkja að hefja formlegar viðræður

20.11.2016 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Þingflokkar Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu á fundi sínum í dag að þeir væru reiðubúnir til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Flokkarnir hafa hist á tveimur óformlegum fundum um helgina. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist vera bjartsýn á framhaldið.

Reiknað er með að viðræðurnar hefjist strax á morgun. Fram kemur í tilkynningu frá Lísu Kristjánsdóttur, aðstoðarmanni Katrínar, að „málefnahópar flokkanna muni á næstu dögum vinna að því að fara yfir málefnagrundvöll hugsanlegs stjórnarsamstarfs. Mun sú vinna hefjast á morgun, mánudag, og munu hóparnir funda á nefndarsviði Alþingis.“

Birgitta Jónsdóttir, einn þriggja umboðsmanna Pírata, segir í samtali við fréttastofu að hún sé bjartsýn á að flokkarnir fimm finni lausnir á þeim málum sem út af standi. Þeir hafi sambærilegan vilja til að ná árangri í sömu málum en hafi til þess mismunandi leiðir. Nú sé markmiðið að ná þessum leiðum saman.

Birgitta segist raunverulega vera bjartsýn, þessi fimm flokka stjórn sé skref í rétta átt frá þeirri átakapólitík sem einkennt hafi íslensk stjórnmál undanfarin ár. Sér hafi fundist að ekki beri það mikið á milli að þessir flokkar geti ekki unnið saman. „Fólki er mjög mikið í mun að bæta bæði vinnubrögð og ásýnd Alþingis.“

Þingmaður Viðreisnar, sem fréttastofa ræddi við, sagði að innan þingflokksins teldu menn fulla ástæðu til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vildi ekki veita frekari viðtöl í kvöld, sagðist ætla að ræða við fjölmiðla þegar viðræðurnar væru farnar af stað á morgun. Hún sagði fyrr í dag, eftir fund flokkanna fimm, að hún væri bjartsýn en líka raunsæ. „Við förum í þetta af fullum heilindum og það er ábyrgðarhluti að reyna að ná saman.“

Nái flokkarnir saman verða þeir með 34 þingmenn gegn 29 þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins sem mynduðu síðustu ríkisstjórn. Þrír af þessum fimm flokkum verða þar að auki að teljast nýir, Viðreisn bauð fram í fyrsta skipti í nýafstöðnum þingkosningum og bæði Björt framtíð og Píratar voru stofnaðir árið 2012 og buðu fyrst fram í þingkosningunum 2013.

Katrín fékk stjórnarmyndunarumboðið á miðvikudag eftir að stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar var slitið. Á fundi með fréttamönnum á Bessastöðum sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands að hafa þyrfti hraðar hendur en tæpar sex vikur eru til áramóta. 

Katrín fundaði síðan með forystumönnum allra þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi á fimmtudag en snemma lá ljóst fyrir að hún myndi fyrst reyna stjórnarmyndun flokka frá miðju til vinstri. Um helgina hafa flokkarnir fimm, Viðreisn, Píratar, Björt framtíð, Samfylking og VG hist á fundum - í gær sátu fimmtán fulltrúar frá flokkunum fimm en í dag voru það aðeins formennirnir og þrír umboðsmenn Pírata.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV