Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samstarfið einkennist af ástarspennu

Mynd: RÚV / RÚV

Samstarfið einkennist af ástarspennu

24.01.2020 - 09:23

Höfundar

Það kom mörgum aðdáendum þungarokkssveitarinnar Dimmu á óvart að þeir skyldu ákveða að taka þátt í Söngvakeppninni í ár og freista þess þannig að fá að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision með lag sitt Almyrkva.

Þegar meðlimir Dimmu eru spurðir hvernig það æxlaðist að þeir ákváðu að taka þátt í ár útskýrir gítarleikarinn Ingó Geirdal sposkur á svip að þátttaka í undankeppninni sé í raun eina leiðin fyrir hljómsveitina að fá spilun á Rás 2. Bróðir hans, bassaleikarinn Silli Geirdal, segir hins vegar að þeir hafi hreinlega áttað sig á að þeir væru með gott lag í höndunum og ekki séð ástæðu til annars en að slá til. „Við erum búnir að gera flest sem maður getur gert í íslensku þungarokki,“ segir hann og söngvari sveitarinnar, Stefán Jakobsson, tekur undir. „Þetta var alveg svona, af hverju ekki? Við fundum ekkert sérstakt svar svo við létum vaða,“ segir hann en bætir við eftir örlitla umhugsun: „Nema að það er vonlaust að gera lag sem er akkúrat þrjár mínútur.“

Það tókst þó og lagið Almyrkvi verður flutt á fyrri undanúrslitunum 8. febrúar í Háskólabíói. Lagið er frábrugðið öðrum framlögum í ár og segjast liðsmenn sveitarinnar meðvitaðir um að þeir séu að einhverju leyti að brjóta blað með þátttöku sinni enda heyrist þungarokk ekki oft í keppninni.

Um texta lagsins segist Ingó fyrst hafa fundið upp titilinn með því að velta því fyrir sér orðum sem ættu skylt við nafn sveitarinnar, Dimma, og hrapað þannig á rétta orðið. „Það er eiginlega ekkert svartara en almyrkvi,“ glottir hann svo. „Almyrkvi er þó bara myrkur frá sjónarhóli sjáandans. Í textanum felst því ákveðin upprisa og í því felst inntak textans.“

Aðspurður segir Egill Örn Rafnsson, trommuleikari Dimmu, að ákveðin dýnamík sé á milli bræðranna, Silla og Ingós, sem hafa auðvitað þekkst alla ævi eða síðan Silli fæddist. „Já, það er oft mikil spenna,“ segir Stefán en Egill grípur fram í: „Þetta einkennist þó meira af ást heldur en spennu. Ástarspennu.“

Rætt var við liðsmenn Dimmu í kynningarþætti Söngvakeppninnar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Söng óvænt á trúbadorakvöldi - endaði í Söngvakeppninni

Popptónlist

„Þau sögðu að þetta myndi aldrei rætast“