
Samstarf í lýðheilsumálum kemur til greina
Janus Guðlaugsson doktor í heilsueflingu aldraðra lagði til að stofnaður yrði sjóður til að efla heilsutengdar forvarnir í samvinnu við sveitarfélögin, á borgarafundi um málefni eldri borgara í beinni útsendingu á RÚV í gærkvöld. Félagsmálaráðherra segist vilja taka Janus á orðinu og vill að ráðist verði í átak eins og hann lýsti.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það koma til greina. „Ég sá þessar tillögur og þetta eru eldhuga tillögur. Við erum með þetta í farvegi hvernig er verið að vinna þetta. Við raunar höfum verið að skoða möguleikan á því að fara í sérstakt samstarf með ríkisstjórninni og sveitarfélögunum í þeim efnum að styðja við heilsueflingu sveitarfélaganna fyrir eldra fólk,“ segir hún.
Janus sagði að minni kraftur og fé væri lagt í heilsutengdar forvarnir hér en í löndunum sem við berum okkur saman við. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sagði í gær að fé væri sóað með því að leggja ekki meiri áherslu á lýðheilsustefnuna.
Svandís segir að til standi að bæta í. „Það sem við erum að gera sérstaklega eru heilsueflandi heimsóknir fyrir heilsugæsluna. Þar erum við að bæta við 200 milljónum fyrir árið 2020. Síðan er það yfirstanda verkefni sem eru heilsueflandi samfélag og skólar sem embætti landlæknis er að sjá um sem fer vaxandi frá einu ári til annars.“ Hún ítrekar að fólk beri ábyrgð á eigin heilsu.
Þá var rætt um einmanaleika eldra fólks í þættinum og aldursfordóma sem það verður fyrir.„Það sem ég staldraði sérstaklega við í þættinum gær var umræða um einmanaleika og mikilvægi þess að hafa tilgang í lífinu og svo framvegis. Við þurfum að passa okkur á því að þetta er ekki verkefni einhvers tiltekins aðila. Samfélagið í heild þarf að gæta að því að fólk hafi tilgang. Vegna þess að það hefur að reynslu og þekkingu að miðla alla ævi.“